Vinstri stjórnin: 20 milljarðar til 775 heimila
Síðasta hálmstrá Samfylkingarinnar og Vinstri grænna í hatrammri baráttu sinni gegn því að heimilin fái leiðréttingu á forsendubresti verðtryggðra húsnæðislána virðist vera að halda því fram að leiðréttingin hygli stóreignafólki og hátekjuhópum.
Ríkisútvarpið gleypti í gær agnið með öngli, sökku og línu, og flutti frétt af því að heilar 230 fjölskyldur sem ættu rétt á leiðréttingu ættu að meðaltali 177 milljónir í hreina eign. Fréttastofan gerir svo tilraun til að éta veiðistöngina líka með því að taka upp fréttina innan um Range Rover bíla. Stay Classy San Diego.
Stjórnarandstæðingar hafa í kjölfarið farið hamförum á samfélagsmiðlum með þessa frétt að vopni og haft hana til marks um að aðgerðir ríkisstjórnarinnar snúist aðeins um að hygla hátekjufólki og auðmönnum.
Þetta er stórkostleg della.
Setjum þennan skrökmálflutning nú í samhengi staðreynda málsins:
Í fyrsta lagi kemur fram í sömu frétt að leiðréttingin nái til 64.500 heimila. Sextíuogfjögurþúsundogfimmhundruð. Það þýðir að þessi 230 heimili sem verið er að skammast yfir eru 0,3% af heildarfjöldanum sem á rétt á aðgerðunum. Semsagt: 97,7% þessara 64.500 heimila (þ.e. 63016 heimili) eiga ekki 177 milljónir að meðaltali í hreina eign.
Í öðru lagi kemur fram í sömu frétt að 18.520 fjölskyldur eigi minna en eina milljón í hreina eign og 18.530 fjölskyldur eigi á milli 1 og 10 milljónir í hreina eign. Semsagt: 37.050 fjölskyldur af þessum 64.500, þ.e. meira en helmingur þeirra (57%), eiga minna en 10 milljónir og þar af eiga 28,7% minna en eina milljón.
Í þriðja lagi er sett sérstakt þak á leiðréttinguna, einmitt til þess að ekkert heimili geti fengið hærri niðurfellingar en 4 milljónir. Þetta er beinlínis gert í þeim tilgangi að koma í veg fyrir tugmilljóna niðurfellingar til hátekjufólks.
Þessar einföldu staðreyndir sýna
- að tæplega tveir þriðju þeirra sem njóta leiðréttingarinnar eru fjölskyldur sem eiga minna en 10 milljónir
- að rúmur fjórðungur þeirra á minna en milljón.
- að enginn getur fengið meira en 4 milljónir í niðurfellingar óháð tekjum og eignastöðu
En fyrir alla muni, pössum að enginn fjalli um staðreyndirnar í stóru myndinni. Það gæti skemmt fína, fína áróðurinn um auðmennina og stóreignafólkið.
Skoðum nú aðgerðir ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna í samanburði. Hversu vel standast þær gagnrýni sömu flokka á leiðréttinguna. Hversu vel var passað upp á að þær aðgerðir gögnuðust ekki bara hátekjufólki og auðmönnum?
Jú sjáið til, þær kolfalla á prófinu.
Í fyrsta lagi nýttust aðgerðir fyrri ríkisstjórnar aðeins 10% heimila með verðtryggðar húsnæðisskuldir, eða um 7000 heimilum í heild. Heildarupphæðin var 45 milljarðar og 30% þeirrar fjárhæðar sem var varið til 110% leiðarinnar fór til heimila með yfir 10 milljónir í tekjur.
Í öðru lagi fengu 1% heimilanna (775 heimili) nærri helming heildarupphæðarinnar, eða heila 20 milljarða! Já við skulum lesa þetta aftur. 775 heimili fengu 20 milljarða.
Í þriðja lagi fengu þessi 775 heimili öll yfir 15 milljóna niðurfærslu. Meðalniðurfærsla þessara heimila var 26 milljónir króna. Í aðgerðunum nú fær enginn meira en 4 milljónir.
Í fjórða lagi voru meðaltekjur þessara 775 heimila á mánuði á árinu 2009 um 750 þúsund en um tugur þeirra var með meðaltekjur yfir tvær milljónir króna á mánuði. Dæmi eru um að menn með meira í 2 milljónir í mánaðarlaun hafi fengið meira en 50 milljónir í afskriftir og sömuleiðis dæmi um fólk sem fékk meira en 100 milljónir afskrifaðar.
Í fimmta lagi fengu næstum því öll þessara 775 heimila (95% þeirra) 300 milljónir í sérstakar vaxtabætur frá vinstri stjórninni! 20 milljarða beinar niðurfellingar skulda þóttu greinilega ekki nóg. Það er því heldur klént að heyra Steingrím J. Sigfússon, Árna Pál Árnason og fleiri gagnrýna leiðréttinguna með þeim rökum að sérstakar vaxtabætur nýtist betur fyrir lágtekjufólk og fólk á leigumarkaði.
Staðreyndin er sú að í leiðréttingunni nú munu heimili með minna en fjórar milljónir í heildartekjur á ári fá hlutfallslega mest í sinn hlut af niðurfærslunni (um 24% af heildarfjárhæðinni). Nærri helmingur af heildarumfangi leiðréttinga fer til heimila með árstekjur undir 6 milljónir króna og rúmlega 60% af umfangi leiðréttinga til heimila með árstekjur undir 8 milljónum.
Það er því hrein lygi að leiðréttingin gagnist aðallega hátekjufólki eða hygli sérstaklega stóreignamönnum umfram aðra. Þeir fyrrverandi ráðherrar sem þannig tala ættu að líta alvarlega til baka á eigin verk.
Athugasemdir: