Veiði(gjalda)hnífurinn í kúnni.

Nokkur umræða hefur orðið um breytingu á lögum um veiðigjöld að undanförnu, bæði sanngjörn og ósanngjörn eins og gengur í pólitíkinni. Hún skal ekki gerð að sérstöku umræðuefni hér.

Í fyrradag fór svo af stað undirskriftasöfnun um óbreytt lög um veiðigjöld, áskorun á Alþingi að samþykkja ekki veiðigjaldafrumvarpið sem liggur fyrir þinginu. En gangi það ekki eftir verður áskorunin afhent forseta til áskorunar um að synja lögunum samþykkis.

Það er því ljóst að forvígismönnum undirskriftasöfnunarinnar er mikið í mun að núverandi lögum verði ekki breytt.

Nú er það fjarri mér að draga úr þeim sem nýta undirskriftasafnanir til að berjast fyrir sínum málstað. Það er gott og jákvætt. En eins og með aðra hluti verður ekki hjá því komst að benda á hnífa sem standa í kúm.

Það er nefnilega svo að það er ekki hægt að reikna út veiðigjöld fyrir næsta fiskveiðiár samkvæmt núverandi lögum. Því hefði hvaða ríkisstjórn sem tók við eftir kosningar komist að. Og það vissi reyndar ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri-grænna fyrir kosningar. Fékk meira að segja ábendingu um það í desember 2012 og aftur í mars 2013. Í greinargerðinni er skilmerkilega bent á þetta:

Sjálfstæðri nefnd, veiðigjaldsnefnd, er falið að annast útreikning á sérstöku veiðigjaldi, sbr. 1. mgr. 4. gr. laganna. Að auki ber nefndin frumkvæðis- og rannsóknarskyldu eftir því sem greinir í 4. mgr. 4. gr. laganna. Sjálfsögð forsenda að starfi nefndarinnar er að hún ráði yfir nauðsynlegum upplýsingum til starfa sinna, en á því hefur reynst misbrestur. Það hefur sýnt sig að lögin eru ekki nægilega afdráttarlaus um heimildir til nauðsynlegrar öflunar upplýsinga og miðlunar þeirra milli embættis ríkisskattstjóra, Hagstofu Íslands og veiðigjaldanefndar. Nefndin vakti athygli ráðuneytisins á þessu í lok mars og síðan hefur verið leitað leiða til úrlausnar. Sú vinna hefur ekki skilað tilætluðum árangri og útséð er um að ekki er unnt að leggja á sérstakt veiðigjald samkvæmt lögunum fyrir komandi fiskveiðiár 2013/2014.

Semsagt: Veiðigjaldanefndin sem ríkisstjórn Samfylkingar og VG skipaði sagði þeirri ríkisstjórn frá því í desember 2012 og svo aftur mánuði fyrir kosningar að það verði ekki hægt að leggja á sérstakt veiðigjald samkvæmt lögunum fyrir næsta fiskveiðiár.

Það er skiljanlegt að þessi staðreynd sé ekki á allra vörum þar sem fjölmiðlar hafa sýnt henni fremur litla athygli í annars duglegum fréttaflutningi af málinu.

Staðreyndin er hins vegar augljóslega engin uppfinning núverandi ríkisstjórnarflokka og því kannski helst til langt seilst að leita skýringa í BA ritgerðum um styrki til þeirra.

Í ljósi þessa vaknar sú spurning hvernig aðstandendur undirskriftasöfnunarinnar um óbreytt veiðigjald hafa hugsað sér að veiðigjöldin verði innheimt samkvæmt óframkvæmanlegu lögunum sem halda á óbreyttum skv. áskoruninni?

Það er nefnilega þannig að gjöld sem ekki er hægt að reikna lögum samkvæmt koma aldrei inn í ríkiskassann.

 

Fyrirsögn stenst ekki skoðun

Forseti Íslands lýsti skoðun sinni á stöðu aðildarviðræðna Íslands og Evrópusambandsins við þingsetningu síðast liðinn fimmtudag. Orð forsetans foru í taugarnar á ýmsum en þó sérstaklega þeim sem töldu að forsetinn hefði sagt eitthvað allt annað en hann sagði eða túlkuðu orð hans á sérkennilegan hátt. Mat forsetans var um margt líkt mati varaformanns Framsóknarflokksins sem birtist í Bændablaðinu um svipað leyti og vakti gremju hinna sömu og settu út á orð forsetans.

Ríkisútvarpið gerði frétt um þá afstöðu varaformannsins að nú væru ekki heppilegar aðstæður fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að ESB.

Fréttamaðurinn fullyrti að þetta væri „nokkuð þvert á orð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra, frá því að stjórnarsáttmálinn var kynntur á Laugarvatni hinn 22. maí.“

Svo voru þau orð spiluð: „Að sjálfsögðu kemur til þjóðaratkvæðagreiðslu, en menn hljóta, við ákvörðun um tímasetningu, að taka aðstæður inn í reikninginn,“

Að halda því fram að þau orð að það þurfi að taka aðstæður með í reikninginn “gangi nokkuð þvert á” orð forseta Íslands og varaformanns Framsóknarflokksins þess efnis að nú væru ekki réttu aðstæðurnar virðist “ganga nokkuð þvert á” sanngjarnt mat.

Næst var vitnað í orð starfsmanns stækkunarstjóra ESB sem sagði ekki annað en að ákvörðun um að hefja aðildarviðræður við Ísland hefði verið tekin af öllum ríkjum og stæði óbreytt. Ekki var augljóst hvaða erindi þetta ágæta staðlaða svar embættismannsins í Brussel átti í fréttina nema til að stilla því upp sem einhvers konar andstæðu þess sem forsetinn hafði sagt, sem það var auðvitað ekki.

Daginn eftir birtist ný frétt um málið, fyrsta frétt hádegisfrétta. Við upphaf fréttatímans sagði: “Ummæli forsætisráðherra þess efnis að fullveldismál heyri undir forseta Íslands standast ekki skoðun. Þetta segir prófessor í stjórnskipunarrétti. Forsætisráðherra breyti ekki stjórnskipun landsins.”

Hvað hafði gerst? Hafði prófessor í stjórnskipunarrétti haft samband við fréttastofuna og fullyrt að orð forsætisráðherra stæðust ekki skoðun og auk þess talið sig þurfa að árétta að forsætisráðherra breytti ekki stjórnskipun landsins? Nei, það var ekki alveg svoleiðis.

Sami fréttamaður og unnið hafði “nokkuð þvert á” fréttina fullyrti nú að orð forsætisráðherra um að fullveldismál heyrðu m.a. undir forseta Íslands stæðust ekki skoðun.

Viðmælandinn, Ragnhildur Helgadóttir, prófessor, svaraði spurningum fréttamanns reyndar ágætlega og ekkert var út á svör hennar að setja.

Fréttamaður spurði: “Þannig að það sem þú ert að segja að forseti Íslands fer ekki með fullveldismál?”

Því svaraði prófessorinn: “Þetta er erfið spurning að svara vegna þess að fullveldismál í lögfræðilegum skilningi er annað mál en fullveldismál í þeim skilningi sem forsætisráðherra notar það þarna.”

Semsagt: Lögfræðilega er ekki munur á fullveldismálum og öðrum málum, en það á ekki beint við um orð forsætisráðherra þar sem hann er ekki að tala um þetta í lögfræðilegum skilningi.

Þessi bútur var svo af einhverjum ástæðum klipptur út úr fréttinni sem sett var á heimasíðu RUV, enda hefði hin afdráttarlausa fyrirsögn sem sett var á fréttina annars passað enn verr en ella, þ.e. fyrirsögnin : “Ummæli Sigmundar standast ekki skoðun.”

Þrátt fyrir ágætt svar prófessorsins var næst spurt: “Þannig að þessi ummæli Sigmundar Davíðs fela kannski í sér einhverja breytingu á stjórnskipun landsins?”

Prófessorinn upplýsti, sem von var, að forsætisráðherra breytti ekki stjórnskipun landsins.

Telji menn að forseti Íslands eigi ekki að tjá sig um fullveldi landsins sem hann er í forsæti fyrir, mál sem heyrir undir alla Íslendinga, væri líklega ekki úr vegi að spyrja forsetann hvort hann sé sama sinnis.

Ekki var það þó gert, en sami fréttamaður dró þess í stað úr pússi sínu í kvöldfréttum annan fræðimann til að spyrja hvort sá væri sammála túlkun fréttamanns á svörum viðmælanda úr hádegisfréttum? Ekki stóð á því. Hvergi í viðtalinu virtist hins vegar koma til álita að spyrja fræðimanninn hvort hann væri sammála því mati lögfræðiprófessorsins að þessi túlkun fréttamanns ætti í raun ekki við ummæli forsætisráðherra.

Það hlýtur að teljast eðlilegt að fréttamenn fjölmiðlils allra landsmanna gæti þess að fyrirsagnir séu almennt í samræmi við staðreyndir og ummæli viðmælenda.

—————————————

Athugasemd 11.6.2013: Umræddur fréttamaður hafði samband við mig og kom á framfæri allnokkrum athugasemdum við pistilinn, sem er auðvitað gott og sjálfsagt. Þar kom m.a. fram að fyrirsögnin sem um ræðir hafi verið komin frá viðmælanda sjálfum skv. samtali áður en fréttin var birt. Það var mér auðvitað ókunnugt um. Því er hér með til haga haldið og samkvæmt þeirri skýringu hefur þess vissulega verið gætt að fyrirsögnin væri í samræmi við ummæli viðmælandans.

JÞS 

 

 

Björn Valur og appelsínurnar

Það er ekki einleikið hvernig Birni Val Gíslasyni tekst að misskilja flest varðandi þetta bankasölumál. Þegar fréttir bárust af því rétt fyrir páska að til stæði að selja hlut erlendra kröfuhafa í bönkunum til lífeyrissjóðanna korteri fyrir kosningar, og framsóknarmenn vöruðu við því og sögðu það ótímabært og varasamt, þá misskildi hann allt saman og fór mikinn í fjölmiðlum um að ekki stæði til að selja hlut ríkisins í bönkunum.

Þetta var svona eins og Framsókn hefði varað við því að selja epli, en Björn Valur hefði skammast yfir því að það stæði ekki til að selja neinar appelsínur.

Í dag hleypur Björn Valur aftur á sig á álíka vandræðalegan hátt. Hann heldur því fram að hin þverpólitíska nefnd um afnám hafta sé á einhvern hátt að gagnrýna stefnu Framsóknar gagnvart erlendu kröfuhöfunum í bréfi sínu til ráðherra.

Hið rétta er að nefndin bendir þvert á móti á að afnám fjármagnshafta verði að nálgast með heildrænum hætti og að lausnir á afmörkuðum vanda innan hafta geti seinkað afnámi þeirra í heild og jafnvel ógnað fjármála- og stöðugleika. Svo segir um bankasöluna í bréfi nefndarinnar:

Nefndin telur rétt að koma þessu sjónarmiði á framfæri á þessum tímapunkti þar sem að fréttaflutningur hefur verið af áhuga fjárfesta, m.a. lífeyrissjóða, á kaupum á hlutum í Arion banka eða Íslandsbanka. Slíkar vangaveltur eru þó með öllu ótímabærar enda getur svo veigamikil breyting innan fjármagnshafta ekki átt sér stað nema fyrir liggi með hvaða hætti þau verða afnumin í heild.

Nefndin segir semsagt að það sé ótímabært  og varasamt að ætla að nú að selja hlut erlendra kröfuhafa í bönkunum til lífeyrissjóða án þess að það sé hluti af heildarlausn um afnám hafta.

Það er nákvæmlega það sama og Framsókn hefur haldið fram. Nefndin er semsagt ótvírætt að taka undir málflutning Framsóknar í bréfinu, ekki gagnrýna hann.

Björn Valur hefur því enn á ný misskilið, tekist á óskiljanlegan hátt að lesa appelsínur úr bréfi sem fjallar um epli.

Er til of mikils mælst að fráfarandi formaður fjárlaganefndar og varaformaður annars ríkisstjórnarflokkanna setji sig betur inn í mál tengd fjármagnshöftum og sölu bankanna en svo að hann stökkvi í fjölmiðla aftur og aftur með upphrópanir og staðhæfingar byggðar á misskilningi?

Hin válega vinstritilhneiging íhaldsins

Það er svolítið spes að fylgjast með sparki Sjálfstæðismanna í fjölmiðlum, bloggum og fermingarveislum um að góður árangur Framsóknar í kosningum muni vera ávísun á áframhaldandi vinstri stjórn. Það virðist vera orðin opinbera línan sem á að beita á þeim bænum næstu vikurnar.

Þau um það. Hið rétta er að framsóknarmenn hafa í langan tíma talað fyrir því að starfa í ríkisstjórn með þeim flokkum sem vilja vinna að stefnumálum Framsóknar. Það mun væntanlega bara koma í ljós hvaða flokkar hafa áhuga á því þegar búið er að telja upp úr kössunum.

Þangað til tekur þessi söngur á sig ýmsar kómískar myndir. Kristján Þór Júlíusson lét til að mynda hafa eftir sér í fjölmiðlum að Framsókn “hafi tilhneigingu til að mynda vinstri stjórnir”. Undir þessa “tilhneigingu” tóku t.d. Guðlaugur Þór og fleiri. Nú síðast birtist það á steypuhrærivél Óla Björns Kárasonar að það sé “söguleg staðreynd” að Framsókn hafi alltaf myndað vinstri stjórn ef þess er kostur.

Þetta finnst sagnfræðingnum svolítið fyndið. Það er nefnilega þannig að frá lýðveldisstofnun eru ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokksins með vinstri flokkunum (án Framsóknar) fleiri en ríkisstjórnir Framsóknar með vinstri flokkunum (án Sjálfstæðisflokksins).

Hin raunverulega “sögulega staðreynd” er því sú að af þessum tveimur flokkum er það Sjálfstæðisflokkurinn sem hefur ríkari “tilhneigingu” til að halla sér að vinstri flokkunum.

Úpps.

Það er ýmislegt reynt í kosningabaráttu. Óli Björn, Kristján Þór og fleiri ættu samt að sleppa því að láta úr sér svona vitleysu um stjórnmálasöguna sem hver einasti kjósandi getur flett upp á Wikipediu.

Semur Icesave stjórnin af sér enn og aftur?

Nú virðist eiga að að semja um að koma gróða vogunarsjóðanna í skjól rétt fyrir kosningar. Í því sambandi er rétt að rifja aðeins upp staðreyndir um árangur í samningum á vakt fráfarandi ríkisstjórnar. 

Í júní 2009 samþykkti ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna Icesave samninga Svavars Gestssonar, Icesave 1, án þess að lesa þá fyrst. Vaxtakostnaðurinn fyrir íslenska skattgreiðendur hefði aldrei orðið minni en um 250-300 milljarðar í erlendum gjaldeyri. Með harðri baráttu tókst stjórnarandstöðunni og fleiri aðilum að takmarka skaðann með því að þvinga fram efnahagslega fyrirvara sem voru svo fastir fyrir að Bretar og Hollendingar tóku þá ekki í mál.

Í október 2009 samþykkti þessi sama ríkisstjórn viðaukasamninga við Svavarssamninginn, Icesave 2, sem gerði þessa fyrirvara að engu. Vaxtakostnaðurinn fyrir íslenska skattgreiðendur hefði aldrei orðið minni en 150-200 milljarðar í erlendum gjaldeyri. Íslenska þjóðin hafnaði þessum samningi ríkisstjórnarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu í mars 2010.

Í desember 2010 samþykkti þessi sama ríkisstjórn þriðja Icesave samninginn, Icesave 3, sem var töluvert skárri en hinir tveir en hefði samt í dag verið búinn að safna vaxtakostnaði fyrir íslenska skattgreiðendur upp á a.m.k. 60 milljarða í erlendum gjaldeyri. Íslenska þjóðin hafnaði þessum samningi ríkisstjórnarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu í apríl 2011.

Í gærkvöldi birtist frétt á RÚV um að verið sé að reyna að losa erlendu kröfuhafa bankanna úr snörunni með því að Framtakssjóður Íslands kaupi af þeim bankana á afslætti og greiði fyrir með erlendum eignum, erlendum gjaldeyri. Þessi frétt setti að mér hroll.

Stærsti eigandi Framtakssjóðsins er Landsbanki Íslands. Landsbanki Íslands er í um 80% eigu ríkissjóðs. Fjármálaráðherra í ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri græna fer með þennan eignarhlut fyrir hönd ríkisins. Til að þessi kaup gangi í gegn með greiðslu í erlendum eignum þarf Seðlabankinn að koma að málinu. Seðlabanki sem t.d. fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna um Icesave 2 samningana 2010 gaf út upplýsingar sem sýndu okkur allt annað en raunveruleikann.

Er það furða þótt við sem höfum fylgst mjög náið með framkomu og aðgerðum þessarar ríkisstjórnar í Icesave málinu frá árinu 2008 spyrjum núna: Um hvað er verið að semja? Af hverju eru þessir samningar komnir í gang núna rétt fyrir kosningar? Er verið að segja okkur allt sem skiptir máli? Er allt uppi á borðinu? Er aftur verið að semja burt svigrúmið sem annars gæti nýst heimilunum í landinu, eins og var gert þegar ríkisstjórnin afhenti kröfuhöfunum bankana árið 2009?

Getur það verið að það sé pólitískt heppilegt fyrir Samfylkinguna og Vinstri græna að koma fram rétt fyrir kosningar og segjast vera í þann mund að leysa snjóhengjuvandann með svona samningum? Koma kröfuhöfunum í skjól með gommu af gjaldeyri fyrir kosningar svo þeir þurfi ekki að hafa áhyggjur af því sem gerist eftir kosningar?

Við hljótum að velta þessu fyrir okkur. Við höfum ekki gleymt því að í Icesave málinu samþykkti ríkisstjórnin í upphafi algerlega ónýtan samning, bara til að semja. Samningurinn var ekki einu sinni lesinn fyrst, þótt hann hefði haft skelfileg áhrif á lífskjör í landinu. Svona mistök mega ekki endurtaka sig.

Erlendu kröfuhafarnir eru gríðarsterkir andstæðingar. Þeir hafa yfir miklum fjármunum að ráða og þeir eru með margt bráðgáfað og harðduglegt fólk í vinnu fyrir sig hér á Íslandi. Þræðir þeirra liggja nú orðið mjög víða í samfélaginu, jafnvel víðar en flestir átta sig á. Vogunarsjóðunum er alveg sama um lífskjör Íslendinga. Þeir vilja bara passa upp á gróðann sinn. Og þeim líst ekki á það sem gæti komið fyrir þennan gróða eftir kosningarnar. Þess vegna vilja þeir komast í skjól núna.

Við unnum Icesave orrustuna að lokum. Baráttan við erlendu kröfuhafana er orrusta um lífskjör Íslendinga í framtíðinni, alveg eins og baráttan um Icesave. Við þurfum að heyja þá orrustu saman af jafn mikilli einurð og jafn mikilli hörku.

Og í þeirri baráttu er eitt algerlega skýrt:

Ríkisstjórnin sem ítrekað samdi af sér í Icesave málinu má ekki semja af sér gagnvart hrægammasjóðunum korteri fyrir kosningar. Það má ekki líðast.

Moli um málþóf og miðla

Fréttastofa Bylgjunnar og Stöðvar 2 slær því upp sem fyrstu frétt í morgunsárið að “Málþófið haldi áfram á Alþingi”. Í fréttinni er það fullyrt að umræða um stjórnarskrárfrumvarp hafi “farið í málþóf í gærkvöldi”. Þessi frétt er röng.

Orðið málþóf er notað yfir það þegar þingmenn stjórnarandstöðu reynir að tefja eða stöðva mál í þinginu með því að halda margar og langar ræður. Ekkert slíkt átti sér stað í gær.

Þvert á móti voru það þingmenn ríkisstjórnarflokkanna sem töluðu mest um stjórnarskrána í gær. Átta stjórnarþingmenn héldu ræður um málið í samtals 175 mínútur.

Tveir framsóknarmenn héldu ræður í samtals 71 mínútu.

Tveir Sjálfstæðismenn héldu ræður í samtals 71 mínútu

Margrét Tryggvadóttir talaði í 11 mínútur.

Það sem átti sér stað á Alþingi í gær var umræða, ekki málþóf. Ja, ekki nema fréttamenn Bylgjunnar og Stöðvar 2 telji að þingmenn ríkisstjórnarinnar séu að standa fyrir málþófi til að stöðva stjórnarskrármálið?

Það hlýtur að vera lágmarkskrafa að fréttamenn kanni hvað í raun á sér stað áður en þeir skrifa fréttir frá Alþingi.

Hræðslubandalagið

Fyrir Alþingiskosningarnar 1956 mynduðu Alþýðuflokkur og Framsóknarflokkur kosningabandalag með það að markmiði að halda Sjálfstæðisflokknum fyrir utan ríkisstjórn. Bandalagið var nefnt Hræðslubandalagið af andstæðingum þess.

Nú keppast hrunstjórnarflokkarnir báðir, Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn, við að berja sem mest á Framsókn í greinum og viðtölum.

Samfylkingin boðar að atkvæði greidd Framsókn tryggi að Sjálfstæðisflokkurinn komist í ríkisstjórn. Það á að hræða vinstrimenn heim í hagann.

Sjálfstæðisflokkurinn hamast á því að atkvæði greidd Framsókn tryggi áframhaldandi vinstristjórn. Það á að hræða hægrimenn heim á garðann.

Ég hef áður fjallað um það hvers konar rökþrot svona málflutningur er. Skiptir þá engu hvort hann kemur frá hægri eða vinstri.

Þetta ágerist nú eftir því sem vinstri og hægri flokkarnir sjá það svartara í skoðanakönnunum. Bjarni Benediktsson gekk svo langt að halda fram þeim ósannindum í Morgunblaðinu um helgina að framsóknarmenn hafi “í langan tíma talað fyrir því að mynda vinstristjórn”. Einhverjir hefðu á árum áður kallað svona lagað Moggalygi.

Hið rétta er að framsóknarmenn hafa í langan tíma talað fyrir því að starfa í ríkisstjórn með þeim flokkum sem vilja vinna með okkur að stefnumálum Framsóknar. Þar á meðal eru ofarlega á blaði lausnir á skuldavanda heimilanna og afnám verðtryggingar.

Það er því umhugsunarvert að málflutningur bæði Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar gefur skýrt til kynna að þessir flokkar hafi ekki áhuga á að vinna að þessum málum með Framsókn. Forystumenn þeirra nota jafnvel fjölmiðlaviðtöl sín frekar til að útskýra hversu vond stefnumál Framsóknar séu og gera framsóknarmönnum upp skoðanir en til að mæla sínum eigin stefnumálum bót. Er þá ekki rökrétt ályktun að þessir flokkar vilji helst mynda ríkisstjórn hvor með öðrum ef þeir fá tækifæri til?

Í kosningunum árið 1956 vann Hræðslubandalagið nauman sigur og tókst að halda andstæðingum sínum utan við ríkisstjórn. Upp úr stjórnarsamstarfinu slitnaði hins vegar að tveimur árum liðnum. Sagan er góður kennari.

 

Tveir + tveir = króna

Árni Páll Árnason hefur farið mikinn í fjölmiðlum (nema á meðan hann var týndur) um að “gömlu kerfisflokkarnir” boði óraunhæfar lausnir í efnahagsmálum. Samkvæmt honum og hinum í Samfylkingunni og Bjartri framtíð, eru allar aðrar lausnir en upptaka evru óraunhæfar.

Evran skal allt leysa. Evran skal galdra burt gjaldeyrishöftin. Evran skal koma í veg fyrir lífskjaraskerðingu vegna gengisfellinga. Evran skal lækka vexti til jafns við það lægsta í ESB.

Allt eru þetta yfirborðsloforð. Aldrei er farið dýpra í það hvernig þetta allt á að gerast. Aldrei er útskýrt hvernig evran mun töfra burt skuldir ríkisins og snjóhengjuna í einu vetfangi. Aldrei er sýnt fram á hvernig evran mun koma í veg fyrir að hér verði innri gengisfelling launa og atvinnuleysis á sama hátt og í evruríkjunum sem gátu ekki nýtt ytri gengisfellingu gjaldmiðilsins í niðursveiflunni. Aldrei er það útskýrt hvers vegna litla evrulandið Ísland muni sjálfkrafa fá á silfurfati sömu lágu vexti og stóru evruríkin, en ekki sömu háu vexti og hin litlu evruríkin. Einn lærdómur evrukrísunnar er jú að sama vaxtastig fyrir alla er ekki raunhæft.

Staðreyndin er sú að það eru Samfylkingin og stóra systir hennar, Björt framtíð, sem boða algerlega óraunhæfar lausnir í efnahagsmálum. Ástæðan er fyrst og fremst þessi:

Það þarf að taka af festu á efnahagsvanda Íslands á næsta kjörtímabili. Næstu fjórum árum.  Og það er algerlega ljóst að evra verður ekki tekin upp á Íslandi á næstu fjórum árum.

Ekki taka mín orð ein fyrir því, Samfylkingin hefur sjálf skrifað undir þessa staðreynd í þverpólitískri nefnd um peningastefnu og gjaldmiðlamál. Það gerðu hinir boðberar evrunnar, ASÍ og SA líka. Fjármálaráðherra tók við skýrslunni athugasemdalaust og enginn hefur andmælt henni.

En það þarf í raun engar skýrslur til að sjá þetta. Þetta er jafn einfalt og að tveir plús tveir eru fjórir.

Jafnvel þó allt gangi upp verður samningum við ESB, þjóðaratkvæðagreiðslu og inngöngu í Evrópusambandið héðan af ekki lokið fyrr en í fyrsta lagi eftir tvö ár. Þá er kjörtímabilið hálfnað. Áður en ESB ríki fá að taka upp evru þurfa þau svo að vera a.m.k. tvö ár í ERMII myntsamstarfinu, (þar sem kostnaðurinn við að halda gengi krónunnar innan vikmarka skrifast á Seðlabanka Íslands).

Tvö ár plús tvö ár eru fjögur ár. Og þá er kjörtímabilið búið. 

Það þarf því ekki nema grunnfærni í stærðfræði til að átta sig á að þegar Samfylkingin og Björt framtíð segja fyrir kosningar 2013 að Evra leysi efnahagsvandann á næstunni er það rangt. Þau eru að lýsa langtímamakrmiði en láta það líta út eins og það sé raunhæft á næsta kjörtímabili þó að þau viti betur. Og hvað er það er kallað þegar maður segir eitthvað sem maður veit að er ekki satt? Einmitt.

Fyrir utan þessa staðreynd mun Ísland þurfa að uppfylla Maastricht skilyrðin til að fá evru. Eftir því þarf að bíða enn lengur. Aftur er óþarfi að taka mín orð fyrir því, AGS hefur ítrekað bent á að Ísland muni ekki uppfylla skuldaskilyrði Maastricht fyrr en í fyrsta lagi 2020-2025. Það er eftir tvö til þrjú kjörtímabil.

Evruflokkarnir hafa með öðrum orðum ekki sagt kjósendum hvernig þeir ætla að gera það sem þarf að gera í efnahagsmálum á Íslandi næstu fjögur ár. Loforðin um að evran leysi vandann eru óraunhæf, blekking.

Það er ekkert að því að stjórnmálaflokkar hafi það að langtímamarkmiði að ganga í ESB og taka upp evru. Ég er ekki sammála því langtímamarkmiði en ber fulla virðingu fyrir þeirri skoðun. Þessir sömu stjórnmálaflokkar verða hins vegar að horfast í augu við staðreyndir og tala við kjósendur í landinu á grundvelli staðreynda. 

Minnugir kjósendur geta rifjað upp málflutning Samfylkingarinnar árið 2009 um hraðferð inn í ESB og lausn efnahagsvandans með skjótri upptöku evru. Síðan eru liðin fjögur ár.

Eftir kosningar 2013 þarf að taka á vandanum strax. Það er ekki hægt að bíða í fjögur ár eða lengur eftir evru.

Ef þessi sömu óraunhæfu loforð verða aftur það eina sem Samfylkingin og Björt framtíð geta boðið íslenskum heimilum og atvinnulífi er hætt við að margir kjósendur muni fara á kjörstað í apríl með It Could Have Been You með Journey í huganum:

I can’t wait all my life, on a street of broken dreams.”

A fólk og B fólk

Í umræðunni um leiðréttingu á stökkbreyttum húsnæðislánum heimilanna og afnám verðtrygggingar skiptast stjórnmálamenn nokkurn veginn í tvo flokka, A fólk og B fólk.

A fólkið segir: Við getum ekki. Við getum ekki leiðrétt stökkbreytt lán. Við getum ekki komið til móts við heimilin. Við getum ekki afnumið verðtrygginguna.

B fólkið segir: Við getum. Við verðum að finna leið. Við verðum að finna leið til að leiðrétta stökkbreytt lán. Við verðum að finna leið til að koma til móts við heimilin. Við verðum að finna leið til að afnema verðtrygginguna. Það er hægt.

Þessa tvískiptingu má til dæmis glöggt heyra í umræðuþáttum gærdagsins, Silfri Egils og Sprengisandi Sigurjóns(12. og 3. hluti). Marinó G. Njálsson skrifar einnig um þetta áhugavert blogg um helgina.

Þeir sem núna segja “ekki hægt!” við því að taka á skuldavanda heimilanna eru sumir þeir sömu og sögðu “það er hægt!” þegar nærri 100 milljörðum var ausið úr ríkissjóði í gjaldþrota bankastofnanir. Þeir sömu og sögðu “það er hægt!” þegar átti að borga 300 milljarða í vexti af Icesave. 

Þessi flokkaskipting milli þeirra sem vilja gera eitthvað og þeirra sem ætla ekki einu sinni að reyna er skýr. Það er gott. Þá hafa kjósendur skýra valkosti.

Þeir geta sett x við A fólk – við getum ekki – við ætlum ekki.

Eða þeir geta sett x við B.

 

 

 

 

D.reifararnir gangsettir

Þegar Framsóknarflokkurinn lyftist yfir 18% markið í skoðanakönnunum virðast Sjálfstæðismenn hafa fengið hland fyrir hjartað. Allt í einu hafa skrif helstu áróðursvefja hægri manna skipt í ofboði um stefnu á útblástursopum mykjudreifaranna, sem nú vísa öll í átt að miðjunni.

Hér hefur áður verið fjallað um að landsfundur Sjálfstæðisflokksins bar þess merki að flokkurinn sá álíti framsóknarmenn sína helstu andstæðinga í komandi kosningum. Nýjustu skoðanakannanir virðast hafa treyst þá skoðun í sessi. Að minnsta kosti virðist frjálshyggjuarmurinn hafa hrokkið algerlega af hjörunum við þær fréttir að Framsókn sé orðin “of” stór.

Nýjasta útspilið er gamalkunnugt stef um að vinstristjórn Jóhönnu sé Framsóknarflokknum að kenna. Frjálshyggjuboltarnir á bæði Vefþjóðviljanum og bloggsíðu Óla Björns Kárasonar eru byrjaðir á þessum söng og þá má brátt búast við að smáfuglarnir byrji að bera á túnin.

Tilgangurinn er augljós, að hræða sjálfstæðismenn til að kjósa Sjálfstæðisflokkinn.

Þetta örþrifaráð felur í sér algera uppgjöf gagnvart málefnalegri rökræðu. Og það heilum átta vikum fyrir kosningar. Ég átti von á meiru, hafði til dæmis gert mér vonir um að hægri menn væru tilbúnir til að ræða málefnalega um muninn á stefnu Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins um skuldaleiðréttingu og afnám verðtryggingar “í þágu heimilanna”. Þess í stað virðist rökþrotið hafa náð tökum á þeim fyrirfram.

Það er ósköp sorglegt að hægri flokkur þori ekki að treysta á sínar eigin hægri-málefnaáherslur til þess að fá hægrimenn til að kjósa sig heldur grípi til hræðsluáróðurs.

Staðreyndin er sú að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sækir umboð sitt til alþingiskosninga í apríl 2009, ekki til Framsóknarflokksins. En það er svo sem skiljanlegt ef Óli Björn, Glúmur og félagar hafa reynt að gleyma þessum kosningum, þær voru ekki beinlínis hápunkturinn á sögu Sjálfstæðisflokksins.

Þeir gætu líka rifjað upp að ein af stóru ástæðunum fyrir því að Framsókn veitti minnihlutastjórninni hlutleysi (með skilyrðum sem öll voru svikin) var að Sjálfstæðismenn komu í veg fyrir að hægt væri að mynda þjóðstjórn fram að kosningum. Geir Haarde þverneitaði því nema Sjálfstæðisflokkurinn færi með þar með forsæti. Landið mátti heldur vera stjórnlaust fram að kosningum rétt eftir hrunið en að Sjálfstæðismenn gæfu afslátt á eigin forgangi.

Það var heldur kaldrifjað hagsmunamat. Ískalt jafnvel.