Hvers vegna kannast Píratar ekki við eigin stefnu og málflutning?
Í gær sakaði Birgitta Jónsdóttir kapteinn Pírata forsætisráðherra um að fara með þvætting þegar hann benti á að tillögur Pírata um lögbundna grunnframfærslu myndu kosta um 100 milljarða á mánuði, 1200 milljarða á ári – sem er t.d. meira en tvöfaldar tekjur ríkisins árið 2013.
Birgitta afneitaði málinu þrívegis í ræðustóli Alþingis, vildi í fyrsta lagi ekki kannast við að slík borgaralaun væru stefna Pírata því aðeins ætti að kanna málið, í annan stað virtist hún vilja drepa málinu á dreif með því að ítreka að það væri bara lagt fram af varaþingmanni flokksins og í þriðja lagi þvertók hún fyrir að Píratar vildu að upphæð grunnframfærslu á Íslandi væri 300 þúsund krónur á mann á mánuði.
Fjölmiðlar brugðust að sjálfsögðu hressilega við og slógu hver á fætur öðrum upp fyrirsögnum um að Birgittu þætti skelfing að hlusta á þvætting forsætisráðherra. Hvergi virtist gerð tilraun til þess að fjalla gagnrýnið um málefnið sem var til umræðu eða greina rök þeirra sem það ræddu. Það skal því gert hér.
Það sem Birgitta komst gagnrýnilaust upp með að kalla þvætting er nefnilega fyllilega rökrétt greining á málinu.
Tillagan er í samræmi við stefnu Pírata
Í fyrsta lagi er það furðulegt að Birgitta skuli afneita því að í þingsályktunartillögunni felist stefna Pírata. Í stefnuskrá flokksins segir m.a.:
1. Að lögfesta lágmarksframfærsluviðmið. Allir eiga rétt á mannsæmandi tekjum í auðugu landi. …
4. Einfalda framfærslukerfið, þ.e.a.s. atvinnuleysisbóta, örorkubóta og önnur bótakerfi. Afnema ætti hugtakið ‘bótakerfi’. …
9. Fjármagna skal áðurtaldar aðgerðir með núverandi fjárveitingum til atvinnu- og menntamála fyrir bótaþega, endurskoðun á bótakerfinu samhliða eflingu á virkni einstaklinga og framtaks hans til sköpunar og atvinnu, endurskoðun á núverandi skattkerfi með það að markmiði að einfalda kerfin og þarafleiðandi minnka yfirbyggingu þeirra (stjórnsýsla), og betri skilvirkni innan velferðar- og heilbrigðiskerfisins.
Þingsályktunartillagan endurspeglar þessa stefnu mjög vel og leggur til að lagt verði mat á hvaða kostir séu í boði til að koma henni í framkvæmd. Þar segir m.a. í greinargerð:
Skilyrðislaus grunnframfærsla er hugmynd að kerfi sem ætlað er að leysa almannatryggingakerfið af hólmi eða í það minnsta einfalda það verulega, gera það réttlátara og sömuleiðis uppræta ákveðinn innbyggðan ójöfnuð í samfélaginu. Þetta er framkvæmt með því að greiða hverjum og einum borgara fjárhæð frá ríkinu óháð atvinnu eða öðrum tekjum.
Það er því augljóst að tillagan er í fullu samræmi við stefnu Pírata
Tillagan er lögð fram af öllum þingflokki Pírata
Í öðru lagi er óskiljanlegt hvers vegna Birgitta hleypur frá ábyrgð á málinu með því að benda á varaþingmann flokksins sem flutningsmann málsins. Hið rétta er að Birgitta var sjálf meðflutningsmaður ásamt tveimur þingmönnum pírata. Málið var því lagt fram af öllum þingflokki Pírata.
Og ef upptaka lágmarksframfærslu fyrir hvern borgara landsins, borgaralauna, er í fullu samræmi við stefnu Pírata og er lögð fram af öllum þingflokki Pírata þá stendur í raun bara eftir sú spurning hvað Píratar telji eðlilegt að grunnframfærslan/borgaralaunin sé há upphæð?
Þingsályktunartillagan gerir vissulega ráð fyrir því að settur sé á fót hópur til að skoða það ásamt öðru, engin tala er þar nefnd. En það er ekki sérlega flókið að draga ályktanir um það út frá málflutningi Pírata almennt.
Málflutningur og stefna Pírata sýnir að 300 þúsund eru rökræn og eðlileg tala
Í þriðja lagi skulum við því skoða nokkra möguleika til að komast að þeirri tölu (til einföldunar verður miðað við að allir borgarar landsins (332.750 í lok árs 2015) hljóti borgaralaun eins og það er orðað í þingsályktunartillögunni). Ef stefnu pírata, málflutningi og framlögðum málum á þingi er fylgt eftir, hvaða rökréttu möguleikar standa þá til boða?
1. 25.000 kr á mánuði – kostnaður ríkisins 100 milljarðar kr. á ári
Fyrsti möguleikinn er að borgaralaun verði fjármögnuð með því fé sem nú þegar er lagt í almannatryggingakerfið – í samræmi við stefnu Pírata og t.d. þær hugmyndir sem þeir vísa til í umræðunni í Finnlandi. Þá standa til boða um 100 milljarðar á ári. Miðað við það kæmu í hlut hvers og eins rúmar 300 þúsund krónur á ári eða um 25 þúsund krónur á mánuði. Það er augljóst að 25 þúsund krónur duga ekki til grunnframfærslu svo að Píratar hljóta að gera ráð fyrir því að ríkið hljóti að þurfa að leggja töluvert hærri fjárhæð til borgaralauna en sem nemur núverandi útgjöldum til almannatrygginga og bótakerfisins.
2. 300.000 kr. á mánuði – kostnaður ríkisins 1198 milljarðar á ári
Á bak við hurð númer tvö bíður einfaldlega málflutningur Pírata í öðrum málum sem varða framfærslu og kjaramál og hljóta að gefa vísbendingu um hvað flokkurinn telur ásættanlega grunnframfærslu. Birgitta Jónsdóttir kapteinn flokksins lagði t.d. fram frumvarp til laga um lágmarkslaun á síðasta þingi, ásamt þingmönnum Vg, þar sem gert var ráð fyrir að lágmarkslaun yrðu 240 þúsund kr. á mánuði og myndu hækka með vísitölu. Síðustu kjarasamningar gera svo ráð fyrir því að lágmarkslaun verði orðin 300 þúsund krónur árið 2018. Í umræðum á þingi fyrir áramót létu Píratar að sér kveða um kjaramál og kjör aldraðra og öryrkja og í báðum málum kom skýrt fram að þingmenn flokksins studdu að lágmarkslaun skyldu vera 300 þúsund krónur og að þeim þættu núverandi bætur of lágar (bætur einstaklings með húsnæðisuppbót er nú um 246 þúsund krónur, sem vissulega er ekki há upphæð til framfærslu).
Allt sem hér er leitt fram byggir beint á stefnu, tillögum, ræðum og lagafrumvörpum Pírata og þingmanna þeirra. Það er vandséð hvað af ofantöldu gefur Birgittu Jónsdóttur tilefni til að neita því að Píratar sjái fyrir sér að grunnframfærsla þurfi að vera um 300 þúsund krónur á mánuði á hvern borgara. Er það álitið eðlilegt að formaður stjórnmálaflokks hlaupist undan ábyrgð á eigin þingmálum og málflutningi? Máske einhver atorkusamur fjölmiðlamaður gæti spurt hana að því?
Þarf stærsti stjórnmálaflokkur landsins ekki að standa fyrir máli sínu?
Það er afar sérstakt að formaður stærsta stjórnmálaflokks landsins samkvæmt könnunum skuli aftur og aftur komast upp með að tala þvers og kruss opinberlega án þess að fá svo mikið sem gagnrýna spurningu, en sömu miðlar virðast oftar en ekki falla hver um annan þveran til að leita sérfræðinga og álitsgjafa sem sagt geta frá því hvernig sumir aðrir formenn hafa rangt fyrir sér þegar þeir opna munninn.
Í morgunútvarpi RÚV í morgun sagði Birgitta Jónsdóttir til dæmis að upptaka borgaralauna þýddi að lífeyrissjóðakerfið yrði lagt niður og fæðingarorlofsgreiðslur sömuleiðis. Hvaða skoðun ætli verkalýðshreyfingin hafi á því að áunnin réttindi yrðu slegin af á þann hátt? Hvað finnst Gylfa Arnbjörnssyni um það? Mun einhver hafa fyrir því að spyrja hann?
Ætlar einhver að skoða hverju það myndi breyta fyrir nýbakaðar mæður að fá ekki lengur hlutfall af tekjum sínum í fæðingarorlofsgreiðslur heldur þurfa að treysta á grunnframfærslu? Eða hvaða áhrif það myndi hafa á orlofstöku feðra sem eru skv. reynslunni enn líklegri til að láta upphæðir hafa áhrif á ákvörðunina?
Þarf bankastjórinn í alvöru meðgjöf frá ríkinu? Hvernig eykur það jöfnuð?
Annað er það sem ég á líka erfitt með að átta mig á varðandi borgaralaun. Hvernig, í ljósi allrar þeirrar umræðu um mikilvægi aukins jöfnuðar á Íslandi sem átt hefur sér stað undanfarin ár, það gengur upp að bankastjóri skuli fá úthlutað frá ríkinu sömu upphæð á mánuði og einstæð móðir? Velferðarkerfi Norðurlanda byggjast á því að inngrip almannatrygginga séu félagsleg – þ.e. að sameiginlegir sjóðir samfélagins séu nýttir til að grípa þá sem sem eiga erfitt uppdráttar á eigin spýtur. Þetta er ein af grunnhugsjónum velferðarsamfélagsins eins og við þekkjum það.
Hugmyndin um upptöku grunnframfærslu fyrir alla borgara felur í sér að almannatryggingakerfið sem í dag byggir á þessari grunnhugsjón verði lagt niður og í staðinn komi kerfi þar sem allir fá jafnt skammtað í askinn, hvort sem hann er galtómur eða fullur af graut. Hvort sem fólk er fátækt eða ríkt. Hvort sem fólk er atvinnulaust eða í fullri vinnu.
Samt er markmiðið skv. tillögu þingflokks Pírata að „uppræta ákveðinn innbyggðan ójöfnuð í kerfinu“. Nú er ég ekki sérfræðingur í þessum efnum, en það væri gaman að heyra hvað t.d. Stefán Ólafsson hefur að segja um þetta?
Stefna stjórnmálaflokka getur orðið raunveruleiki
Það sem ég er að benda á er að vinsælasti stjórnmálaflokkur landsins í könnunum getur ekki skorast undan eigin stefnumálum þegar á hann er gengið og kallað einfalda og eðlilega rökfærslu þvætting. Kannanirnar segja nefnilega að Píratar geti jafnvel vonast til að geta hrint stefnumálum eins og þessu í framkvæmd á næsta kjörtímabili. Eða er ekki sífellt verið að spyrja Birgittu hvort hún vilji verða forsætisráðherra?
Forsætisráðherraefni Pírata, og þingmenn flokksins, geta því ekki lengur hlaupist undan eðlilegri umræðu um stefnumál eins og borgaralaun með því að segja það óljósar hugmyndir, einfalda könnun á möguleikum eða alls ekki bundið við neinar tölur. Það er einfalt að kasta fram hugmyndum án ábyrgðar í stjórnarandstöðu. Framkvæmd stefnu og hugmynda borgurunum til heilla byggir hins vegar á raunveruleikanum. Það er því eðlilegt og sjálfsagt að ræða stefnu í samhengi við hann.
Athugasemdir: