Fíllinn lætur ekki plata sig
Internetið er soldið eins og fíllinn, það gleymir engu. Jafnvel þegar fólk leggur töluvert á sig til að gleyma, eða fá aðra til að gleyma, á internetið það til að dúkka upp og minna á gömul sannindi.
Í því samhengi varð mér hugsað til Icesave málsins þegar fréttir birtust af því að Hollendingar hefðu selt kröfur sínar í þrotabú Landsbankans. Á internetinu má einmitt finna ýmsan fróðleik úr sex ára fréttaflutningi, rökræðum og rifrildi þjóðarinnar um það mál allt saman.
Síðustu misseri hafa ýmisir lagt nokkuð á sig til að fá fólk til að gleyma því sem þeir gerðu í því máli árið 2009. Sú barátta hefur aðallega gengið út á eftirfarandi röksemdafærslu í ýmsum útgáfum í ræðu og riti:
Að vegna þess að fullar heimtur verða í þrotabú Landsbankans hafi Icesave málið í raun aldrei verið það mikla þrætuepli sem það varð, Allur Icesave höfuðstóllinn hefði alltaf verið borgaður úr þrotabúinu og skattgreiðendur hefðu því getað samþykkt allt saman áhyggjulaust.
Semsagt: Þeir sem þusuðu á móti Icesave samningunum voru bara með óþarfa vesen, þrotabúið átti alltaf fyrir öllu saman, bingó.
Bæði Steingrímur J. Sigfússon og Svavar Gestsson eru meðal þeirra sem hafa otað þessari nýju söguskoðun að landsmönnum.
Gallinn er að þetta er svona “svo langt sem það nær” sannleikur. Það er að segja, jú það er rétt að þrotabú Landsbankans mun eiga fyrir höfuðstólnum. Hins vegar sleppa hinir ágætu postular hinnar endurskoðuðu Icesve-sögu að nefna það í sömu andrá að það fylgdu þessum höfuðstól vextir.
Alveg heilmiklir vextir.
Og þeir skauta yfirleitt lipurlega yfir þá staðreynd að ekki nokkur einasta króna af þessum vöxtum hefði verið greidd úr þrotabúi Landsbankans. Þeir hefðu allir fallið beint á ríkissjóð, veiddir upp úr vösum skattgreiðenda. Ríkisábyrgð á höfuðstól og vöxtum var jú megintilgangurinn með samningunum.
Nú má vera að einhverjir dæsi, veifi jafnvel fingri og býsnist yfir þessum Jóhannesi sem aldrei getur hætt að tala um Icesave. Hvurn röndóttan hefur það að gera með pólitík dagsins í dag?
Ja, til dæmis svona:
Steingrímur J. var ekki lengi að smella í eina grein um daginn þegar afkoma ríkisins á árinu 2013 reyndist betri en á horfðist. Sko til – sagði hann – svona var vel farið með fjármál ríkisins á minni vakt. Og Samfylkingarfólk tónaði “það skiptir máli hverjir stjórna” eftir efninu á samfélagsmiðlum.
Einmitt það.
Þessi betri staða ársins 2013 en vænst var skýrist raunar aðallega af einni 25 milljarða arðgreiðslu Landsbankans í ríkissjóð. Án hennar hefði endanleg niðurstaða úr síðustu fjárlögum vinstri stjórnarinnar verið rúmlega 25 milljarðar í mínus.
Það var því alls ekkert plat þegar núverandi forsætis- og fjármálaráðherrar bentu á það fyrir ári síðan að staða ríkissjóðs væri mun verri en kosningafjárlög vinstri stjórnarinnar höfðu gert ráð fyrir. Það var bara rétt og satt.
En hvað var þetta þarna um internetið?
Jú alveg rétt. Internetið er eins og fíllinn, það gleymir engu. Í janúar 2010 birti Morgunblaðið Icesave reikninn, reiknivél sem sýndi hverjar greiðslur yrðu af Icesave samningunum nokkur ár inn í framtíðina. Þetta var gert til að auðvelda fólki að skilja samningana og ábyrgðirnar sem þeir báru í sér fyrir skattgreiðendur við fyrri þjóðaratkvæðagreiðsluna um Icesave.
Þessi reiknir er auðvitað ekki fullkominn. Hann var þó settur saman af Datamarket út frá þeim forsendum sem lágu fyrir í samningunum og sýnir niðurstöðu út frá þeim og forsendum sem slegnar eru inn í hann. Og þó að tölurnar séu máske ekki fullkomlega nákvæmar sýnir reiknirinn mjög vel hvaða hlutverk vaxtagreiðslurnar leika í heildarsamhenginu.
Ef við setjum nú inn í Icesave reikninn forsenduna um fullar heimtur (100%) af eignum Landsbankans, sem Steingrímur, Svavar og fleiri hafa viljað halda fram að skipti mestu máli, þá er niðurstaðan áhugaverð.
Það kemur nefnilega í ljós að reiknirinn er ekki sammála þeim félögum um að það geri barasta allt gott og blessað. Reiknirinn segir:
Miðað við fullar heimtur í þrotabú Landsbankans (og gengi dagsins í dag) er skuld íslenska ríkisins skv. samningnum 140 milljarðar (núvirt á 5,55%), til greiðslu á árunum 2016-2023. Það eru frá 35 og niður í 25 milljarða á hverju þessara ára. Að meðaltali tæpir 30 milljarðar á ári.
30 milljarðar á ári. Það er slatti. Það skiptir vissulega máli hverjir stjórna.
Sem betur fer var þessum gölnu samningum sem lagt hefðu að meðaltali 30 milljarða vaxtabyrði á ári á íslenska skattgreiðendur (þrátt fyrir fullar heimtur í þrotabú Landsbankans) hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Fjárlög íslenska ríkisins þurfa því ekki að gera ráð fyrir niðurskurði, skattheimtu, óvæntum arðgreiðslum eða öðrum ráðum til að fjármagna þessar 30 milljarða vaxtagreiðslur (í erlendum gjaldeyri) á ári 2016-2023. Þeir 30 milljarðar geta sem betur fer nýst í brýnni verkefni.
Þá staðreynd þarf hins vegar hvorki að þakka vinnusemi Steingríms, samningakænsku Svavars né útreikningum Indriða.
Þá glæsilegu niðurstöðu getur þjóðin þakkað sjálfri sér.
Athugasemdir: