Veiði(gjalda)hnífurinn í kúnni.
Nokkur umræða hefur orðið um breytingu á lögum um veiðigjöld að undanförnu, bæði sanngjörn og ósanngjörn eins og gengur í pólitíkinni. Hún skal ekki gerð að sérstöku umræðuefni hér.
Í fyrradag fór svo af stað undirskriftasöfnun um óbreytt lög um veiðigjöld, áskorun á Alþingi að samþykkja ekki veiðigjaldafrumvarpið sem liggur fyrir þinginu. En gangi það ekki eftir verður áskorunin afhent forseta til áskorunar um að synja lögunum samþykkis.
Það er því ljóst að forvígismönnum undirskriftasöfnunarinnar er mikið í mun að núverandi lögum verði ekki breytt.
Nú er það fjarri mér að draga úr þeim sem nýta undirskriftasafnanir til að berjast fyrir sínum málstað. Það er gott og jákvætt. En eins og með aðra hluti verður ekki hjá því komst að benda á hnífa sem standa í kúm.
Það er nefnilega svo að það er ekki hægt að reikna út veiðigjöld fyrir næsta fiskveiðiár samkvæmt núverandi lögum. Því hefði hvaða ríkisstjórn sem tók við eftir kosningar komist að. Og það vissi reyndar ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri-grænna fyrir kosningar. Fékk meira að segja ábendingu um það í desember 2012 og aftur í mars 2013. Í greinargerðinni er skilmerkilega bent á þetta:
Sjálfstæðri nefnd, veiðigjaldsnefnd, er falið að annast útreikning á sérstöku veiðigjaldi, sbr. 1. mgr. 4. gr. laganna. Að auki ber nefndin frumkvæðis- og rannsóknarskyldu eftir því sem greinir í 4. mgr. 4. gr. laganna. Sjálfsögð forsenda að starfi nefndarinnar er að hún ráði yfir nauðsynlegum upplýsingum til starfa sinna, en á því hefur reynst misbrestur. Það hefur sýnt sig að lögin eru ekki nægilega afdráttarlaus um heimildir til nauðsynlegrar öflunar upplýsinga og miðlunar þeirra milli embættis ríkisskattstjóra, Hagstofu Íslands og veiðigjaldanefndar. Nefndin vakti athygli ráðuneytisins á þessu í lok mars og síðan hefur verið leitað leiða til úrlausnar. Sú vinna hefur ekki skilað tilætluðum árangri og útséð er um að ekki er unnt að leggja á sérstakt veiðigjald samkvæmt lögunum fyrir komandi fiskveiðiár 2013/2014.
Semsagt: Veiðigjaldanefndin sem ríkisstjórn Samfylkingar og VG skipaði sagði þeirri ríkisstjórn frá því í desember 2012 og svo aftur mánuði fyrir kosningar að það verði ekki hægt að leggja á sérstakt veiðigjald samkvæmt lögunum fyrir næsta fiskveiðiár.
Það er skiljanlegt að þessi staðreynd sé ekki á allra vörum þar sem fjölmiðlar hafa sýnt henni fremur litla athygli í annars duglegum fréttaflutningi af málinu.
Staðreyndin er hins vegar augljóslega engin uppfinning núverandi ríkisstjórnarflokka og því kannski helst til langt seilst að leita skýringa í BA ritgerðum um styrki til þeirra.
Í ljósi þessa vaknar sú spurning hvernig aðstandendur undirskriftasöfnunarinnar um óbreytt veiðigjald hafa hugsað sér að veiðigjöldin verði innheimt samkvæmt óframkvæmanlegu lögunum sem halda á óbreyttum skv. áskoruninni?
Það er nefnilega þannig að gjöld sem ekki er hægt að reikna lögum samkvæmt koma aldrei inn í ríkiskassann.