Allt í plati?

samfotrölliðSamfylkingin lýsir því yfir á facebook í dag að Katrín Júlíusdóttir fjármála- og efnahagsráðherra hafi sagt í vikulokunum á Rás 2 á laugardag að við „verðum að losna undan verðtryggingunni og það gerum við best með því að fara inn í alþjóðlegan sterkan gjaldmiðil.“ Þar á hún væntanlega við að lausn Samfylkingarinnar á verðtryggingarvandanum sé að ísland taki upp evruna.

Þessi ummæli Katrínar koma þrátt fyrir allt á óvart, því að í október 2012 skilaði samráðsnefnd fjármálaráðherra um mótun gengis- og peningastefnu áliti sínu, einmitt til Katrínar Júlíusdóttur. Þessi samráðsnefnd var skipuð fulltrúum allra flokka á Alþingi auk fulltrúa ASÍ og SA.

Samráðsnefndin komst að þverpólitískri samhljóða niðurstöðu – einróma áliti (hversu oft gerist það á Íslandi?). Grípum niður í frétt fjármálaráðuneytisins frá 16. október 2010:

Að mati nefndarmanna er ekki hægt að gera ráð fyrir upptöku annarrar myntar á næstu árum.  Því er mikilvægt að tryggja trausta  peningastefnu með þjóðhagsvarúðartækjum og ábyrgð í opinberum fjármálum á grundvelli fjármálareglna sem taka mið af þróun efnahagslífsins.  Slíkt er grundvöllur góðrar hagstjórnar óháð fyrirkomulegi gengismála og peningastefnu.  Almennt telja nefndarmenn að á næstu árum sé sjálfstæð peningastefna eini valkosturinn og trúverðug hagstjórn sem tekur mið af aðstæðum og hagsveiflum sé grundvallaratriði.

Þetta er skýrt: Sjálfstæð peningastefna er eini kosturinn næstu árin og nauðsynlegt er að vinna innan þess ramma. Og undir þetta kvitta ASÍ, SA og Samfylkingin áamt öllum hinum,

Allir þessir aðilar eru sammála um, eftir margra mánaða vinnu og viðtöl við sérfræðinga, að krónan verður gjaldmiðill Íslendinga næstu árin. Skjót upptaka evru er bara einfaldlega ekki í spilunum. Það er almennt viðurkennd staðreynd. Efnahagslegur veruleiki sem allir flokkar þurfa að átta sig á og vinna samkvæmt. Það þýðir að það þarf að taka á skuldum heimilanna og verðtryggingunni innan þess ramma.

Um þetta var t.d. fjallað á RÚV, í Viðskiptablaðinu, í Morgunblaðinu og á Vísi.is. Ég minnist þess ekki að Katrín eða Árni Páll hafi þá séð ástæðu til að andmæla þessari niðurstöðu opinberlega.

En nú styttist í kosningar og þá galgopast þau fram á fjölmiðlavöllinn (ásamt fleirum) með yfirlýsingar um að skjót upptaka evru sé lausnin á öllum vanda. En hvað ætlar þetta ágæta fólk að segja við kjósendur eftir kosningar? Allt í plati?

Fulltrúi Samfylkingarinnar í samráðsnefndinni var Þórunn Sveinbjarnardóttir, sem nýlega var ráðin aðstoðarmaður formanns Samfylkingarinnar. Þannig að þegar Árni Páll geysist fram á fjölmiðlavöllinn með sömu rök og Katrín um að skjót upptaka evru sé eina lausnin á efnahagsvandanum, gjaldeyrishöftunum, vaxtastiginu, verðbólgunni og matvælaverðinu (og öllu hinu), þá er alltént gott að vita að á bak við hann stendur Þórunn og hvíslar í eyra hans að það sé blekking, því að “á næstu árum sé sjálfstæð peningastefna eini valkosturinn og trúverðug hagstjórn sem tekur mið af aðstæðum og hagsveiflum sé grundvallaratriði”. Það hlýtur hún að gera, því hún hefur lært siðfræði og veit að það er ljótt að plata.

Athugasemdir: