Af ótímabærum hringsnúningum S&P

Lánsmatshæfisfyrirtæki, sem flestir Íslendingar kannast við eftir stórleik og á stundum senuþjófnað í Icesave deilunni á undanförnum árum, eru áhugaverð fyrirbæri.

Í morgun sendi eitt þeirra, Standard & Poor’s, frá sér breytingu á horfum fyrir Ísland, horfurnar eru nú taldar neikvæðar,en reyndar með því fororði að það geti hæglega breyst aftur í stöðugar þegar meiri upplýsingar koma fram um fyrirætlanir stjórnvalda.

Í sjálfu sér hefur þessi breyting lítil sem engin áhrif og því engin ástæða til að hlaupa upp til handa og fóta. Það er hins vegar ýmislegt sérstakt við ákvörðun á á þessum grunni á þessum tímapunkti og ekki síður við rökstuðninginn, t.d. samhengi við rökstuðning sumra af fyrri ákvarðanir sama fyrirtækis.

Stjórnvöld hafa þegar sent S&P athugasemdir og mótmæli vegna ákvörðunarinnar, þar sem m.a. er bent á að ákvörðun fyrirtækisins er ótímabær og illa grundvölluð og færð rök fyrir því mati.

Meðal annars má nefna að rökstuðningur S&P fyrir ákvörðuninni byggir á þeirri ályktun fyrirtækisins að líkur séu á að skuldastaða ríkissjóðs hækki umtalsvert í kjölfar aðgerða vegna skuldavanda heimila. Að mati stjórnvalda er þessi ályktun algerlega ótímabær og ófaglega unnin. Í rökstuðningi S&P sjálfum er t.d. sérstaklega bent á að skv. ályktun Alþingis muni nánari útfærsla liggja fyrir í nóvember 2013. Samt sem áður er tekin ákvörðun um breytingu á horfum út frá ónógum upplýsingum. Við þetta er að bæta að fyrirtækið kaus að nýta sér ekki boð forsætisráðuneytisins og Seðlabankans um sérstakan fund til að fara ítarlegar yfir áform um skuldaleiðréttingu, grundvöll þeirra og áætlanir um fjármögnun.

Í þessu ljósi er líka eðlilegt að rifja upp að lánshæfismatsfyrirtæki og Íslendinga hefur áður greint á um leiðir og aðferðir á undanförnum árum, t.d. varðandi Icesave málið.

Það er í því samhengi  sérstaklega athyglivert að aðalrökstuðningur þessa nýjasta mats S&P, þ.e. að frekari skuldaleiðrétting húsnæðislána geti valdið aukinni skuldsetningu ríkissjóðs upp á um eða yfir 10% af landsframleiðslu, stangast algerlega á við útgefið mat S&P frá 29. janúar 2010 þar sem sagði að ef Icesave samningar yrðu óvænt samþykktir í þjóðaratkvæðagreiðslu í mars 2010 myndi lánshæfismat haldast óbreytt en ef ekki myndi fyrirtækið hugsanlega lækka matið um eitt til tvö stig.

Þegar haft er í huga að þessi samþykkt Icesave samninganna hefði haft í för með sér aukna skuldsetningu ríkissjóðs um meira en 10% af landsframleiðslu er augljóst að fyrirtækið er ekki sjálfu sér samkvæmt í grundvallarrökum fyrir mati sínu gagnvart Íslandi.

Stjórnvöld og aðrir hljóta að telja það eðlilega kröfu til lánsmatshæfisfyrirtækja að þau séu sjálfum sér samkvæm í mati og rökstuðningi og að mat þeirra byggi á staðreyndum og nákvæmum upplýsingum en ekki ótímabærum getgátum.

 

Athugasemdir: