Af óbærilegu starfsumhverfi aukakílóa.

Eins og alþjóð virðist vita (þökk sé Smartlandinu) er ég búinn að brasast við að binda endi á ýmis sjálfskaparvíti líkamlegs óheilbrigðis undanfarinn mánuð. Og eins og allar Fru Stellur veraldarinnar vita þurfa öll prógrömm svona skref sem þurfa að uppfyllast af hinum óheppnu Salomonum sem ætla að breyta lífi sínu. Það er jú auðvitað part av programmet. Og af því að í þessu tilviki er ég sjálfur bæði Fru Stella og Salomon þá hef ég í vitleysiskasti komið mér í að tilkynna um afrek mín opinberlega í þeim tilgangi að undanskot haldist í lágmarki.

Það er skemmst frá því að segja að ýmislegt hefur tekist vel en annað minna vel. Ég hef sannanlega dragnast á lappir og farið í sund kl. 6:30 fleiri morgna en nokkur maður átti von á fyrirfram, allra síst ég sjálfur. Svo rammt hefur kveðið að þessari sundáráttu að ég er orðinn nánast ómögulegur maður ef ég klikka á þessu og geri þá skurk að því að komast síðar um daginn. Þetta hefur því gengið nokkuð vel, 500 metrar syntir í hvert sinn, þrisvar í viku, og mér telst til að af þessum áskildu sunddögum(þrisvar í viku) hafi ekki nema þrjú skipti fallið niður. Á minn almenna 41 árs gamla sófakartöflumælikvarða jaðrar það við einhvers konar kraftaverk.

Heldur daprari sögum fer á hinn bóginn af gönguferðum og ljóst að það þarf að efna til átaksverkefnis í þeim efnum í febrúar. Engar nefndir, bara efndir.

Matarræði hefur almennt séð horft til bóta þó skekkjumörk hafi þar verið óþarflega mikil. Helst gengur erfiðlega að standast freistingar hins ógurlega súkkulaði-Belsebúbbs (sem er augljós undirdrýsill hins eiginlega Belsebúbbs) sem eltir mig á röndum (bévaður prakkarinn) og skilur eftir laumulegar freistingar fyrir augum mér á fundum og mannamótum (og allir vita að kaloríur sem maður kaupir ekki sjálfur teljast ekki með).

Það sem er langerfiðast er hins vegar þetta með svefntímann, en það var reyndar fyrirséð. Í því samhengi kemur auðvitað alltaf upp hin heimspekilega spurning (sem hefur þjakað mannkynið frá 1950): “Ef manninum var áskapað að fara að sofa fyrir miðnætti, hví, (ó hví), er alltaf svona margt skemmtilegt að horfa á í sjónvarpinu?”. Við skulum segja að lausn sé á vinnslustigi. Já, það hljómar alltaf vel.

Í það heila hefur þessi galskapur þó gengið vonum framar og skilað sér í Jóhannesi sem er almennt hressari og ánægðari með sjálfan sig (heimildarmönnum ber reyndar ekki saman um það hvort skortur hafi verið á sjálfsánægju… “Offramboð” hefur verið nefnt í því samhengi…).

Ánægjuleg þróun hefur einnig verið á aukakílóamarkaðnum, þar sem lögmál framboðs og eftirspurnar hefur árum saman staðið á haus (harðlínufrjálshyggjumönnum til undrunar og armæðu).

Talsmenn aukakílóa lýstu snemma í ferlinu yfir megnri óánægju með breyttan aðbúnað og versnandi kjör. Tvö þeirra hafa síðan séð sér þann kost vænstan að segja upp störfum, enda sé nýtt starfsumhverfi ekki í neinu samræmi við réttmætar væntingar við ráðningarsamning.

Þriðja aukakílóið hefur lýst ítrekuðum áhuga á að láta verða af uppsögn en þjáist því miður af aðskilnaðarkvíða á háu stigi, segir upp á morgnana en laumast aftur inn um bakdyrnar á kvöldin. Grunur leikur á samsæri þar sem um er að ræða þekktan glæpafélaga hins alræmda súkkulaði-Belsebúbbs.

Rannsókn stendur yfir.

 

Athugasemdir: