Nýjustu fréttir: Sannleikur eða lygi?

Ótrúlegasta fólk er nú farið að éta upp delluna um að skuldaleiðréttingarnar séu minni en hafi verið lofað fyrir kosningar.

Sérstaklega er furðulegt að sjá þennan spuna stjórnarandstöðunnar fullyrtan af þaulreyndu fólki í blaðamannastétt, eins og Agli Helgasyni og tveimur fréttamönnum RUV.

Í Speglinum í gær fullyrti Arnar Páll Hauksson að leiðréttingin væri “minni en lofað var”. Í pistli í dag fullyrti Egill Helgason að það sé “deginum ljósara að skuldaniðurfellingarnar séu ekki af þeirri stærðargráðu sem var lofað fyrir kosningar”. Og í Kastljósi í kvöld fullyrti Þóra Arnórsdóttir að skuldaleiðréttingin sé minni en lofað var fyrir kosningar.

Allt eru þetta rangar fullyrðingar. Það er eitt að fréttamenn vísi í málflutning stjórnmálamanna og annað að þeir fullyrði sjálfir á þennan hátt í fréttaskýringum og spurningum.

Þessar furðulegu fullyrðingar vísa í lygina um að lofað hafi verið 300 milljarða niðurfærlsu lána og sérstaklega að Sigmundur Davíð hafi lofað einhverju slíku. Það er einfaldlega rangt.

Lítum á nokkrar staðreyndir varðandi þennan spuna.

1. Hvergi er minnst á 300 milljarða (eða aðrar tölur í þessu samhengi) í kosningastefnu eða upplýsingaefni Framsóknarflokksins frá því fyrir kosningar. Þar stendur aðeins: “Við viljum að svigrúm sem skapast við uppgjör þrotabúa bankanna verði nýtt til að leiðrétta stökkbreytt verðtryggð húsnæðislán.” Þannig var “stóra loforðið” orðað.

Nú er frumvarp um leiðréttingu komið inn í þingið með ákveðnum millileik sem byggir á skattlagningu. Þegar svigrúmið skapast munum við nýta það til að vinna hraðar niður leiðréttingarhluta lánanna. Það er því einfaldlega verið að efna þetta loforð.

2. Frambjóðendur Framsóknar lofuðu ekki 300 milljörðum í skuldaniðurfærslu í málflutningi sínum fyrir kosningar. Þeir tóku skýrt fram að dæmið væri mun flóknara en árið 2009 og því væri ekki hægt að negla niður ákveðna prósentu eða heildartölu. Það yrði að koma í ljós þegar væri farið að reikna þetta út. Þetta vissum við. Þess vegna sögðum við það svona, einmitt til að lofa ekki einhverju sem við gætum ekki staðið við.

Hvaðan kemur þá spuninn um 300 milljarðana?

3. Talan 240  milljarðar kom inn í umræðuna fyrir kosningar eftir að einhver reiknaði út að verðtryggðar húsnæðisskuldir væru í heild 1200 milljarðar og 20% af því væru 240 milljarðar. Það var nú ekki flóknara. Talan 300 milljarðar komst á flug með bloggum Össurar Skarphéðinssonar og málflutningi Samfylkingarinnar sem hélt því fram að Framsókn lofaði 20% niðurfærslu lána og blandaði því svo við umræðuna um svigrúmið vegna bankanna. Eins og er rakið hér að ofan var það beinlínis rangt. Engri ákveðinni prósentu var lofað fyrir kosningar 2013.

4. Í þættinum forystusætið á RUV, tveim vikum fyrir kosningar var Sigmundur Davíð þráspurður af Sigmari Guðmundssyni um vogunarsjóði og svigrúm sem gæti skapast við uppgjör þrotabúa bankanna. Hann var m.a. spurður hvort hann gæti ábyrgst það að við uppgjör þrotabúanna myndi skapast 300 milljarða svigrúm. Hann sagði að peningarnir væru til og að hann gæti ábyrgst að féð yrði notað til að koma til móts við heimilin.

Hvergi í þessum þætti segir Sigmundur Davíð að allir þessir 300 milljarðar, allt féð eða allt svigrúmið, yrðu notað í skuldaleiðréttingu. Hvergi. Ýmsir halda því samt fram að einmitt þarna hafi 300 ma. loforðið komið. En það þarf ekki annað en að horfa á þáttinn og hlusta á samhengi spurninga og svara til að heyra að það er beinlínis rangt. Í öðrum viðtölum og á fundum um allt land talaði Sigmundur Davíð svo um að svigrúmið mætti líka nýta til að greiða niður skuldir ríkisins.

Ég get alveg skilið að pólitískir andstæðingar grípi til þess sem betur hljómar til að koma höggi á ríkisstjórnina. Það er því miður landlægt í stjórnmálaumræðu.

En þetta er einfaldlega bein lygi. Rakalaus spuni.

Þess vegna er það ótrúlega aumt þegar reyndir fréttamenn eins og Arnar Páll Hauksson og Þóra Arnórsdóttir og einn reyndasti stjórnmálaskýrandi landsins Egill Helgason éta þetta upp gagnrýnilaust og fullyrða að lygin sé sannleikur.

Step your staðreyndatékk upp gott fólk.

Mig langar að bæta við þetta kafla úr pistli Marinó G. Njálssonar þar sem hann rekur vel hvers vegna 300 milljarða niðurfærsla lána hefði aldrei staðið til. Marinó segir:

300 milljarðar

Einhverjum datt í hug að tengja saman ummæli um að 300 milljarðar gætu verið til ráðstöfunar við það að allir þessi 300 milljarðar ættu að fara í leiðréttingu skulda.  Mér vitanlega, og hef ég fylgst mjög vel með umræðunni, þá hefur það aldrei staðið til.  Það sem meira er, að slík upphæð er langt umfram það sem þarf til að leiðrétta þann forsendubrest sem barist hefur verið fyrir að sé leiðréttur.

Tillögur Hreyfingarinnar um leiðréttingu verðtryggðra lána gekk út á að allar verðbætur umfram 2,5% á ári yrðu leiðréttar frá 1.1.2008 til 31.12.2012.  Þrátt fyrir lengra tímabil og meiri leiðréttingu, þá náði upphæð leiðréttinga “bara” upp í 250 ma.kr. og að teknu tilliti til annarra úrræða (að sérstökum vaxtabótum undanteknum) endaði upphæðin í 200 ma.kr.

Hugmyndir Hagsmunasamtaka heimilanna um leiðréttingu forsendubrests umfram 4,0% árlegar verðbætur gaf miðað við sama tímabil um 185 ma.kr. í leiðréttingu og að teknu tilliti til annarra úrræða (á sérstöku vaxtabótanna) væri upphæðin 135 ma.kr.

Það er því ljóst að aldrei hefur staðið til að 300 ma.kr. færu í þessa aðgerð.

Spurningin er því, hvað heyrðu Arnar Páll, Þóra og Egill sem við Marinó heyrðum aldrei?

Athugasemdir: