Hin válega vinstritilhneiging íhaldsins
Það er svolítið spes að fylgjast með sparki Sjálfstæðismanna í fjölmiðlum, bloggum og fermingarveislum um að góður árangur Framsóknar í kosningum muni vera ávísun á áframhaldandi vinstri stjórn. Það virðist vera orðin opinbera línan sem á að beita á þeim bænum næstu vikurnar.
Þau um það. Hið rétta er að framsóknarmenn hafa í langan tíma talað fyrir því að starfa í ríkisstjórn með þeim flokkum sem vilja vinna að stefnumálum Framsóknar. Það mun væntanlega bara koma í ljós hvaða flokkar hafa áhuga á því þegar búið er að telja upp úr kössunum.
Þangað til tekur þessi söngur á sig ýmsar kómískar myndir. Kristján Þór Júlíusson lét til að mynda hafa eftir sér í fjölmiðlum að Framsókn “hafi tilhneigingu til að mynda vinstri stjórnir”. Undir þessa “tilhneigingu” tóku t.d. Guðlaugur Þór og fleiri. Nú síðast birtist það á steypuhrærivél Óla Björns Kárasonar að það sé “söguleg staðreynd” að Framsókn hafi alltaf myndað vinstri stjórn ef þess er kostur.
Þetta finnst sagnfræðingnum svolítið fyndið. Það er nefnilega þannig að frá lýðveldisstofnun eru ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokksins með vinstri flokkunum (án Framsóknar) fleiri en ríkisstjórnir Framsóknar með vinstri flokkunum (án Sjálfstæðisflokksins).
Hin raunverulega “sögulega staðreynd” er því sú að af þessum tveimur flokkum er það Sjálfstæðisflokkurinn sem hefur ríkari “tilhneigingu” til að halla sér að vinstri flokkunum.
Úpps.
Það er ýmislegt reynt í kosningabaráttu. Óli Björn, Kristján Þór og fleiri ættu samt að sleppa því að láta úr sér svona vitleysu um stjórnmálasöguna sem hver einasti kjósandi getur flett upp á Wikipediu.
Athugasemdir: