Hvar ertu, Júróvisjón-úmpff-tisssj hjarta míns?
Íslensku Júróvisjónlögin hætta bara ekki að valda vonbrigðum. Það skal í upphafi viðurkennast að ég er ætíð maður sleggjudóma þegar kemur að Júró. Er stórkostlega fylgjandi glam, rokki, hressleika og almennu showmanship brjálæði í keppninni. Þessi yfirferð skyldi því skoðast í ljósi þess að ég er maður með mission – að þrýsta á meira stuð í júró. Til útskýringar fannst mér It’s My Life með rúmenska vampírumanninum Cezar stjarnfræðilega miklu betra árið 2013 en danski berfætti táradalurinn hennar Emmelie de Forest sem vann það ár. Ég er maður sem finnst Sigur Rós almenn leiðindi en Lordi, Páll Óskar og Pertti Kurikan Nimipäivät alger snilld. Nöff said.
Þó að keppnin hafi gefið af sér margar góðar ballöður og rólegheit (A Monster Like Me kemur t.d. upp í hugann og Is it True? í íslenska samhenginu) þá vil ég almennt hafa stuð. Og það hefur bara að allt of stórum hluta vantað í íslensku undankeppnina undanfarin ár. Reyndar hefur stuðhlutfallið minnkað stórlega almennt í keppninni undanfarin ár. Þar er bévítans dómnefndunum um að kenna. Smá meira um það neðar. En fyrst íslenska stöffið.
Ekki misskilja, það eru alveg hreint ágæt sönglög þarna inn á milli. Fátt sem er fullkomlega drepleiðinlegt, nokkrar svolítið sætar melódíur. En Júróvisjónsnilld? Neeeh. Í því samhengi er þessi íslenska undankeppni ferleg eyðimörk í ár. Sennilega mun Makedóníuheilkennið læsa klónum í mig með tímanum og láta mér finnast fleiri og fleiri lög bara alveg ágæt eftir skrilljón hlustanir. Ég ætla samt að reyna að bólusetja mig fyrir því í ár. Sjáum til.
Það vantar allt Úmpla! í þetta. Alla úmpffúmpff þéttur bassi tisssjtisssj krispí taktur stemmingsslagara. Varför finns där inga Schlager her? For Helvete!
Hverju er um að kenna?
Er íslenska Hægt-og-hljótt-Gunna-Þórðar-ballöðupopphefðin kannski bara of rígnegld í okkur? Þjóð í hlekkjum Það-sem-enginn-sér-hugarfarsins? Af hverju er það orðið eitthvað lögmál að 80% allra framlaga í Söngvakeppni sjónvarpsins séu almennt líkari Birtu, Þá veistu svarið, Sjúbbídú og *hryll* Ég á líf, en snilld eins og Minn hinsti dans, This is My life, Eitt lag enn og All out of luck? Akkuru? Akkuru það? Akkuru gerum við þetta? Akkuru?
En ekki hlusta bara á rassálfana. Lítum á afurðir ársins.
Það besta sem innsend lög buðu upp á í þetta sinn er því miður að stórum hluta álíka áhugavert og meðaltalið af Júróvisjónframlögum Portúgal. Engum finnst þau almenn Júró-snilld nema Reyni Þór Eggertssyni. Almenn niðurstaða um íslensku lögin í ár er semsagt: Á köflum ágæt lög, en algjört slappelsi í Júróvisjónsamhenginu. Eitt stórfínt Júróvisjónlag, tvö til þrjú ágæt lög, restin svona meeeh og svo tvær instant pissupásur.
Skoðum’etta aðeins betur.
Í fyrsta lagi tekur það fullt af lögum í ár alveg mínútu eða meira að byrja. Í keppni í sjónvarpi þar sem lögin mega bara vera þrjár mínútur þá er góð regla að láta eitthvað áhugavert gerast á fyrstu mínútunni. Það er furðuleg árátta hjá íslenskum lagahöfundum að eyða þriðjungi af tímanum í intró eða óþarflega rólegt upphafsvers (jafnvel mörg). Lærum af Sylvíu Nótt og Til hamingju Ísland. Tíu sekúndur af kick ass upptakti og svo beint inn í brjálæðið.
Langbesta lagið í ár, besta júróvisjónlagið og eina lagið sem heldur ennþá algerlega sjó eftir fjórðu og fimmtu hlustun, er Heim til þín með Júlí Heiðari og Þórdísi Birnu. Það er annað árið í röð sem þau eiga besta lagið í íslensku undankeppninni. Vel af sér vikið. Ef þið efist um orð mín hlustið þá á þetta lag og ímyndið ykkur að það sé danskt júróvisjónlag. Svona í stíl við Never Ever Let me Go með Rollo & King. Þetta er einfaldlega lag sem virkar á stóra sviðinu. Létt og skemmtilegt, stemmingstaktur, flottur söngur, fínn texti og sætt samspil. Og jafnvel betra á ensku en íslensku. Ég er klár á því að Þau Júlí og Þórdís eiga eftir að ná vel saman á sviðinu og slátra þessari undankeppni. Þetta er sigurlagið í ár gott fólk. Heyrðuð það fyrst hér.
Skárstu framlögin í ár fyrir utan það eru þrjú, fyrst Bambaramm með Hildi Kristínu og Ég veit það með Svölu Björgvins. Bæði þessi lög eru smá hress, fínar laglínur, flottur söngur, bassinn og takturinn að gera sig. Ég á samt alltaf smá von á því að Svala fari að syngja um jólin, kannski er það bara miðaldra ég í ósjálfráðu nostalgíukasti. Það er líka eitthvað skemmtilegt við stílinn hjá Hildi Kristínu sem tikkar inn í “spes íslenska söngkonan” boxið, Björk, Nanna í OMAM þið vitið. Staðalmyndin af skrýtnu íslensku stelpunni. Syndrómið sem býr til týpur eins og Riley Blue í Sense8.
Svo yljar alltaf gömlum Júrónörd þegar veðjað er á gamalreynda textasnilld eins og “Bamm-baramm-baramm-bamm”. Ding-dinga-dong og Hubba Hule lifðu. En Amambanda gerði það ekki. Og enginn man í dag eftir hinu Abba-Júróvisjónlaginu, Ring Ring, sem komst ekki einu sinni i í lokakeppnina árið 1973 (ókei við munum kannski eftir því en ekki sem júrólagi). Þeir eru tvíeggjað sverð þessir bulltextar.
Gallinn er að það er vonlaust að þessi tvö lög eða rest nái nokkrum einasta árangri í lokakeppninni. Og í því liggur vandinn. Íslenska undankeppnin er stappfull af þokkalegri tónlist sem á núll séns í að komast upp úr riðlinum í lokakeppni Júróvisjón. Neeei segir þú? Ísland bar Valentine Lost og Unbroken á örmum sér. Evrópa gaf miskunnarlausan þumal niður. I rest my case. Heim til þín er eina lagið sem á raunverulegan séns á að komast upp úr riðlinum.
Þriðja lagið í þessum 2-4 sæti hópi er Nótt með Aroni Hannesi Hilmarssyni sem gerir alvöru atlögu að skemmtistaðastemmingunni og gerir það vel. Þetta er alvöru lag, sérstaklega í ensku útgáfunni. Það veltur mikið á sviðsframkomunni en ef hún heppnast vel kæmi ekki á óvart að Nótt steli óvænt senunni og geri atlögu að yfirburðum Júlí Heiðars og Þórdísar Birnu.
En hvað með hin?
Þú og ég með Kristinu Bærendsen og Páli Rósinkranz er sæt kántríballaða, væri flott í rómantískri dramasýningu á sviði Borgarleikhússins en því miður klassísk tissepause á Júrósviðinu. Það sama má segja um Treystu á mig með Sólveigu Ásgeirsdóttur nema hvað leikritið er skemmtilegt barnaleikrit með alvörugefnum undirtón í Þjóðleikhúsinu.
Svo eru þessi óeftirminnilegu, þar sem vantar erynaorminn sem suðar í heilanum eftir hlustun.
Til þín með Arnari Jónssyni og Rakel Pálsdóttur gerir heiðarlega tilraun til að vera stóri dúettinn í keppninni í ár og að vissu leyti heppnast það ágætlega. Lagið er hins vegar allt of hægt og rólegt til að eiga séns og nær ekki nægilega stórum hápunkti. Það vantar alveg Whitney Houston klímaxið í það.
Mér við hlið með Rúnari Eff hverfur jafn hratt út um annað eyra mitt og ég næ að spila það inn um hitt. Mér finnst það bara ágætt á meðan ég hlusta en um leið og ég hætti að hlusta þá man ég ekkert eftir því. Það vantar alveg húkkið. Júró gefur því miður ekki afslætti af slíku.
Ástfangin og Skuggamynd eru ágætar tónsmíðar en ná ekki að fanga hlustandann almennilega.
Ástfangin með Lindu Hartmans er soldið eins og kvikmyndin Lost in Translation, voða flott og vel sungið, en það gerist ósköp lítið.Skuggamynd með Ernu Mist Pétursdóttur hefur flotta uppbyggingu, það er góður slurkur af Wrecking Ball fíling í því (sem í minni bók er mikið lof, Miley Cyrus er jú Madonna vorra tíma), en það fellur í “of lengi að byrja” gryfjuna, keyrir ekki nægilega snemma inn á stuðið og tapar því athyglinni.
Og að síðustu koma þessi sem er erfitt að skilgreina.
Hvað með þig með Daða Frey Péturssyni virðist vera fyrsta júróvisjónlagið (og eitt af fáum almennt síðan Da-da-da með Trio) sem er spilað á Casio VL-1. Það er nettur Berndsen fílingur í þessu sem er að gera sig ágætlega, bara fínt popplag, en á Júróvisjónsviðinu er þetta álíka hittari og Divine með Sébastien Tellier. Og áður en hipsterar landsins stökkva á fætur með vaggandi putta til varnar Sébastien Tellier þá bendi ég á að Divine endaði í 19. sæti af 25 í lokakeppninni – sem það var bara með í því að Frakkland er eitt af fimm stóru löndunum sem þarf ekki að taka þátt í riðlakeppninni. Átti aldrei séns annars.
Karabíska off beat stáltrommu-klukkuspilið í Þú hefur dáleitt mig með Aroni Brink fer svo að lokum bara skelfilega í taugarnar á mér, Ég er alltaf að bíða eftir rastarapparanum sem kemur aldrei. Hvar er hann? Af hverju er segir enginn “One time, man – komdumeðkomdumeðkomdumeð yaaah” með þykkum Jamaíkahreim í þessu júróvisjónlagi óuppfylltra væntinga? Hví?!
Það er svo ekki hægt að klára þennan rant án þess að minnast á textasnilld ársins (fyrir utan Bammbarammbarammbarammrammbamm) sem er klárlega “Klukkan hringir korter í 7, langar að snooza til allvega 2”. Klöppum fyrir því. Takk fyrir. Takk.
Að lokum legg ég að Ríkisútvarpinu sem fulltrúa okkar Íslendinga á vettvangi Eurovision að taka nú Jon Ola Sand út undir vegg þegar færi gefst í Kiev í maí og benda honum kurteislega en ákveðið á að þetta 50% dómnefndafyrirkomulag er bæði að drepa allt stuðið og gleðina sem einkenndi seinni gullöld Júróvisjón á fyrsta áratug aldarinnar, OOOG hefur sýnt sig að er frjórri grundvöllur fyrir rammpólitíska stigagjöf en símakosningin (sem sást ótrúlega skýrt og greinilega í úrslitum keppninnar í fyrra þegar helmingur dómnefnda gaf besta lagi keppninnar ekkert stig því að það kom frá Rússlandi). Ef kurteis rök virka ekki er reynandi að safna saman klinki úr útvarpsgjaldinu og bara múta mannium. Það má byrja á 16.900 kallinum mínum.
En jæja. Til að summa þetta upp:
Heim til þín vinnur.
Nótt berst hatrammlega um annað sætið við annað hvort Bammbaramm eða Ég veit það.
Ragnhildur Steinunn verður í flottum kjólum, með classy hár og geislandi upphandleggsvöðva. Og þegar öllu er á botninn hvolft, þurfum við eitthvað meira?
Jú. Smá meira.
Hvað viljum við?!
Glam! Rokk! Dansmússík og brjálæði!
Hvenær viljum við það?!
Sem fyrst, ef það er ekki of mikið vesen takk.