Ekki hugsa út fyrir kassann
Að “hugsa út fyrir kassann” er oft álitið eins konar aðalsmerki í alls konar vinnu. “Kassinn” er þá yfirleitt hið fyrirfram gefna sett af reglum eða viðmiðum í viðkomandi bransa, nú eða í lífinu almennt. Oft felst í því lítið annað en að fá hugmynd sem engum öðrum hefur dottið í hug áður, eða nálgast viðfangsefni með opnum huga og framkvæma eitthvað sem aðrir hafa bara hugsað um.
Þetta getur allt verið gott og blessað. Hins vegar felst í framsetningunni á hugtakinu að við séum almennt föst í alls konar römmum sem eru lítið umbreytanlegir, maður er annað hvort ósköp normal innan í kassanum eða svolítið meira hipp og kúl fyrir utan hann (16 ára dóttir mín segir mér reyndar ítrekað að það sé ekki lengur hipp og kúl að segja hipp og kúl, og dæsir, en látum það standa).
Þessi tvíhyggja er hins vegar, eins og flest tvíhyggja, ósköp takmarkandi og alls ekki “út fyrir kassann” heldur bara frekar rækilega inni í honum. Og það vekur spurninguna hvort að þriðji kosturinn leynist þarna einhvers staðar inn á milli?
Fyrir nokkrum árum fór ég í nokkurra daga ferð til Óðinsvéa á Fjóni með þáverandi samkennurum mínum í Seljaskóla. Við heimsóttum nokkra mjög ólíka skóla, fengum innsýn í danskt menntakerfi og tókum með okkur þá reynslu heim.
Einn af þessum skólum og andinn sem þar ríkti hefur fylgt mér alla tíð síðan.
Ole og Humlehave
Í Óðinsvéum er hverfi sem þykir eitt flóknasta innflytjendahverfi Danmerkur, Vollsmose. Það hefur komist reglulega í fréttir á undanförnum 20 árum fyrir alls konar vandamál. Í grunninn var það byggt sem ódýrt hverfi og þar var mikið af félagslegum íbúðum. Eftir því sem árin liðu safnaðist þangað fólk með lítil efni af ýmsum ástæðum, innflytjendur þeirra á meðal eins og gerist og gengur. Þegar við heimsóttum barnaskólann í hverfinu, Humlehaveskolen, árið 2003 var hverfið þegar orðið þekkt í Danmörku sem “vandamálahverfi” og skólastjórinn orðinn landsþekktur sem jákvæður talsmaður bæði hverfisins og íbúanna þar.
Í þessari heimsókn mættum við um það bil 10 íslenskir kennarar, ferskir úr síðustu heimsókn í “ósköp venjulegan” danskan skóla þar sem nemendasamsetningin var frekar svipuð og í skólum hér á landi og allir réttu kurteislega upp fingurinn ef þeir vildu tala.
Okkur var vísað inn í rúmgóða skólastjóraskrifstofuna þar sem við settumst við fundaborð og biðum komu Ole skólastjóra. Og litum í kring um okkur.
Þessi skólastjóraskrifstofa var hins vegar ekkert venjuleg. Upp um alla veggi héngu fótboltabolir, fótboltafánar og liðstreflar frá ýmsum þjóðum, bæði mörgum frægustu liðum heims og landsliðum sem og minna þekktum.
Við störðum í forundran. Skrifstofan var þakin í þessu dóti. Svo birtist Ole skólastjóri með sterkt kaffi og byrjaði á að afsaka seinkomuna, það hefði nefnilega verið danskur landsleikur í gær.
Ókei, maðurinn var greinilega fótboltaáhugamaður. Hann byrjaði hins vegar á að segja frá skólanum sem hafði tæplega 400 nemendur af um 15 þjóðernum. Nemendasamsetningin var nánast öfug við aðra skóla í borginni, um það bil 90% nemenda koma frá öðrum löndum eða öðrum menningarbakgrunni en þessum hefðbundna danska. Við fylgdumst með kennslu seinna um daginn og þarna réttu nemendur ekki upp fingur í kurteisi heldur var allt svona meira í líkingu við agastigið sem við þekktum úr íslenska skólakerfinu – svona mátulega stíft skulum við segja.
Skólastjórinn sagði viðfangsefnin líka vera nokkuð af öðru tagi, það væri t.d. stundum töluverð vinna að halda nemendum í skólanum þar sem að á mörgum heimilum væri t.d gert ráð fyrir því að þau væru heima að hjálpa til með yngri systkini ef á þyrfti að halda og fleira slíkt. Einnig kæmi það upp að ólíkir menningarheimar tækjust á innan skólans á ýmsan máta alveg eins og utan hans.
Svo leit hann upp á allt fótboltadótið og útskýrði tvennt sem hann gerði til að efla skólaandann og styrkja nemendur. Hann sagði að þegar nýr nemandi kæmi í skólann þá þyrfti jú að útskýra reglurnar, að það þyrfti að mæta í skólann á hverjum degi, að þetta mætti en ekki hitt og svo framvegis. Og nemendur kæmu frá gjörólíkum menningarheimum þar sem að skólar og skólareglur, menning og samskipti milli fólks væru alls konar ólík.
Yfirleitt yrði nýjum nemendum við eins og okkur gestunum, starsýnt á fótboltagræjurnar á veggjunum. Og fótbolti er jú eins alls staðar í heiminum. Sama hvort þú kemur frá Danmörku, Íslandi, Pakistan, Sómalíu eða Kína þá eru þar tvö mörk, einn bolti, ellefu leikmenn í liði, einn sem má taka með höndum og einn dómari. Sömu reglur gilda fyrir alla. Og allir skilja það og virða.
Líkingin var fullkomin. Og Ole bætti um betur. Í Humlehave var ekki refsing að vera sendur til skólastjórans, það var sóst eftir því. Nemendur báðu jafnvel um það og fengu. Fengu kannski gosflösku og spjall um fótbolta eða hvað sem þörf þótti á. Margir þeirra voru heimagangar á heimili skólastjórans sem hafði dyrnar þar opnar líka fyrir þá sem vildu.
Ramminn getur verið bæði vandamál og lausn
Ég fór út úr Humlehaveskolen sannfærður um að þar hefði mér liðið vel að vinna. Ég er enn sannfærður um það. Og ég hef tekið þessar sáraeinföldu en áhrifaríku hugmyndir skólastjórans timbraða með mér í ansi margt sem ég hef gert síðan.
Það sem hann hafði nefnilega fundið var ekki hvernig hann gæti hugsað út fyrir kassann, heldur hafði hann endurskilgreint kassann upp á nýtt, búið til nýjan kassa, nýjan ramma sem hentaði þeim áskorunum sem hann stóð frammi fyrir dag hvern.
Og það er mikilvægur lærdómur. Rammarnir eru ekki algildir, þeir eru ekki til staðar af því bara og þeir eru ekki óumbreytanlegir. Ramminn er það sem við viljum að hann sé. Kassinn er blekking því við höfum búið hann til sjálf.
Og um leið og við rífum kassann í sundur og röðum honum öðruvísi saman þá eigum við alla möguleika á að púsla honum utan um vandamálið eða láta hann rúma lausnina sem vantar. Lausnin sjálf getur nefnilega sem best legið í því skilgreina sjálfan rammann upp á nýtt.