Vill hinn raunverulegi Ólafur Jón Sívertsen vinsamlegast standa upp?
Fréttagúrkan getur af sér sitthvað skemmtilegt.
Einn af pistlahöfundum fréttaveitunnar Hringbrautar er hinn yfirlýsingaglaði Ólafur Jón Sívertsen. Honum er mjög í nöp við ríkisstjórnina enda fjalla nánast allir pistlar hans um hana á einhvern hátt. Þá fer Ólafur Jón þessi ekki í grafgötur með að hann hafi sérstakan ímigust á Framsóknarflokknum.
Hinn geðþekki dagskrár- og ritstjóri Hringbrautar, Sigmundur Ernir Rúnarsson, fyrrum alþingismaður Samfylkingarinnar, hefur nokkrum sinnum skrifað fréttir úr pistlum Ólafs þessa.
Tvær þeirra tróna nú á forsíðu fréttamiðilsins og báðar fara þær lofsamlegum orðum um téðan Ólaf Jón og gefa orðum hans vægi, segja hann sérlegan innanbúðarmann í utanríkismálum og diplómasíu.
Þetta er athyglivert, ekki síst þar sem það er t.d. nokkuð augljóst að það sem hinn leyndardómsfulli Ólafur Jón skrifar um nýlega Brusselför forsætisráðherra, og Hringbraut birti sérstaka frétt upp úr, er ósköp skringilegt rugl.