(Nýjustu) útúrsnúningar andstæðinga forsætisráðherra
Kjartan Atli Kjartansson fyrrum frambjóðandi Bjartrar framtíðar og blaðamaður Vísis er duglegur að skrifa fréttir af Evrópusambandsmálum. Í dag birtir hann frétt þar sem Eiríkur Bergmann snýr á herfilegan hátt út úr orðum forsætisráðherra á þingi í dag.
Það er alveg ljóst að frjálst flæði fjármagns er eitt af fjórfrelsinu svokallaða innan ESB og EES. Það stendur heldur ekki til að slaufa því. Þetta vita allir sem á annað borð fylgjast eitthvað með Evrópumálum eða efnahagsmálum. Þetta veit forsætisráðherra að sjálfsögðu mæta vel og það er alveg ljóst að Eiríkur Bergmann hefur frjótt hugmyndaflug ef hann heldur í alvöru að forsætisráðherra viti þetta ekki.
Því kemur það verulega á óvart að einhver haldi að augljósir útúrsnúningar eins og í þessari frétt standist skoðun.
Takmarkanir á flæði krónunnar eins og annarra gjaldmiðla er eitthvað sem hefur verið til umræðu frá því að fjármálakrísan hófst. Umræðan, og orð forsætisráðherra á Alþingi í dag, snýst ekki um eiginleg höft heldur hvort það eigi að hafa einhverjar hraðahindranir í flæðinu.
Hagfræðingar hafa notað samlíkinguna um olíuflutningaskip þar sem olíunni er skipt í hólf svo að hún hendist ekki frá einum stað til annars og skapi óstöðugleika. Þarna er einkum verið að tala um flæði milli fjármálastofnana og milli seðlabanka og viðskiptabanka. Þegar forsætisráðherra talaði um að ESB væri að skoða slíka hluti á hann við einmitt það en ekki að til standi að ESB setti á landamærahindranir á fjórfrelsið innan Evrópska efnahagssvæðisins.
Þessi umræða snýr því annars vegar að flæði fjármagns í kerfinu óháð landamærum innan ESB/EES og hins vegar að flæði milli landa þar sem ESB virkar eins og eitt land. Það var enginn að tala um að ESB ætli að leggja fjórfrelsið af, síst af öllu forsætisráðherra.
Ummæli forsætisráðherra sem Eiríkur Bergmann snýr út úr koma fram í fréttinni. Þau eru svona:
“Evrópusambandið sjálft er að fara í gegnum það hvort hið algjörlega takmarkalausa flæði fjármagns milli landa kunni ekki að vera hættulegt og rótin af fjármálakrísunni sem stóð frá árinu 2007 og jafnvel fram á þennan dag.”
Þetta kemur einmitt ágætlega fram í þessari skýrslu hér, Capital flows in the Euro Area. Hún fjallar um efni þessu tengd og er gerð fyrir framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (DG ECFIN) í apríl í fyrra. Í niðurstöðukafla hennar segir m.a.
The extraordinary boom in debt-creating capital flows during the 2003-2007 pre-crisis period was a major contributory factor to the current crisis in the euro area. In turn, the subsequent behaviour of capital flows has been central in understanding the amplitude and transmission of the crisis itself. … Our empirical analysis highlights some important points. In terms of the pre-crisis period, the surge in cross-border debt flows outstripped equity flows, such that risk- absorbing capacity was compromised. Identifying the sources of the general complacency about financial risk during this period (across the advanced economies and across both creditor and debt countries) warrants further investigation and reinforces the case for a more robust macro-financial surveillance framework at both national and international levels.
Ég er nú yfirleitt tiltölulega seinþreyttur til vandræða en það er hreint óþolandi að búa við að það sé aftur og aftur snúið út úr einföldum hlutum sem forsætisráðherra segir á þennan hátt. Það virðist vera orðið einhvers konar sport hjá fámennum hópi að gera orð hans tortryggileg af engu tilefni. Jafnvel hátíðarræður og hefðbundin orðræða um samtakamátt þjóðarinnar fær ekki frið fyrir svona kafbátahernaði.
Þegar menn til dæmis tapa sér yfir því þegar Sigmundur Davíð segir efnislega það sama og Vigdís Finnbogadóttir sagði í mörgum ræðum sínum virðist augljóst að það skipti ákveðinn hóp fólks meira máli hver segir hlutina en hvað er sagt.
Og svo veigrar maður sér við því að benda á útúrsnúningana í hvert sinn vegna þess að þá er básúnað að maður sé sívælandi og það sé nú ekki mark takandi á því þegar bévaður “spunameistarinn” opnar á sér túlann. Það verður væntanlega líka sagt um þennan pistil. Svona er nú pólitíkin skemmtileg.
En það kemur ekki til greina að ég láti það fljúga í þetta sinn að Vísir geti birt frétt sem snýr sannleikanum á haus með þessum hætti upp úr engu án þess að nokkur maður bendi á delluna.
Það sem forsætisráðherra sagði á þingi í dag var einfaldlega rétt.