Leiðréttingin komin til Alþingis
Þá hefur leiðréttingarfrumvörpunum loks verið dreift á Alþingi. Það er frábært að sjá þetta loks vera komið inn í þingið eftir alla vinnuna sem á bak við þau liggur. Nú ríður á að þau fari fljótt og vel í gegn um þinglega meðferð og verði samþykkt fyrir miðjan maí til að fólk geti farið að sækja um lækkun höfuðstóls og ráðstöfun séreignarsparnaðar.
Annars vegar er um að ræða beina höfuðstólslækkun og hins vegar möguleika á að lækka höfuðstól með skattfrjálsri nýtingu séreignasparnaðar. Samanlögð áhrif af þessum tveimur leiðum geta lækkað dæmigert húsnæðislán um 20 prósent.
Umsóknarferlið verður einfalt, Á vef RSK verður sett upp einföld gátt (á veffanginu leidretting.is) þar sem fólk getur notað veflykil Ríkisskattstjóra til að skrá sig inn. Svo þarf bara að gefa upp kennitölu og símanúmer og smella á takka. Þetta er í alvörunni svona einfalt.
Heildarumfang leiðréttingarinnar er um 150 milljarðar króna og aðgerðirnar ná til allt að 100 þúsund heimila, sem eru um 80 prósent allra heimila á landinu. Þetta er almenn aðgerð sem mun lækka greiðslubyrði heimilanna og auka ráðstöfunartekjurnar.
Tæplega helmingur af heildarumfangi höfuðstólsleiðréttingarinnar fer til heimila með árstekjur undir 4 milljónum og 60 prósent til heimila með árstekjur undir 8 milljónum.
Hlutfall fjárhæðar niðurfærslu og árstekna er hærra hjá tekjulægri heimilum en þeim tekjuhærri og meðalfjárhæð niðurfærslu hækkar eftir því sem börn á heimili eru fleiri.
Í dæminu hér að neðan lækkar greiðslubyrðin um 22 þúsund krónur á mánuði. Það munar um minna.
Það er auðvitað ómögulegt að setja fram dæmi sem ná yfir öll tilvik, en þetta er nokkurs konar meðaltilvik þar sem heimili með um 700 þúsund í sameiginlegar tekjur ná að nýta séreignarsparnaðinn að fullu og meðalupphæð beinnar höfuðstólsleiðréttingar er rúmlega 1.1 milljón. Meðaltöl segja auðvitað aldrei alla söguna en gefa samt hugmynd um hvað málið snýst.
Að auki felast í frumvörpunum ný hugsun í húsnæðismálum, þar sem þeim sem ekki hafa húsnæðislán býðst að njóta sömu skattaafsláttarkjara við söfnun séreignarsparnaðar til að nýta til húsnæðissparnaðar. Þetta kemur til dæmis fólki á leigumarkaði til góða.
Ef allt gengur eftir á Alþingi verður opnað fyrir greiðslu inn á séreignarsparnaðarúrræðin þann 1. júlí og umsóknir um höfuðstólsleiðréttingu þann 15. maí. Fólk ætti svo að sjá áhrifin strax í haust, þegar umsóknartímabilinu lýkur.