Híað til heimabrúks

Stundum er sagt að stjórnmálamenn segi eitthvað “til heimabrúks” í milliríkjadeilum. Þá er yfirleitt átt við að því sem sagt er sé ætlað að styrkja pólitískan málflutning viðkomandi stjórnmálamanns eða stjórnmálaflokks í stjórnmálastreðinu heima fyrir eða koma höggi á pólitíska andstæðinga, fremur en að tala fyrir sameiginlegum hagsmunum þjóðarinnar út á við.

Þetta þykir svona almennt séð ekki sérlega sterkt og oft á tíðum er minna mark tekið á viðkomandi stjórnmálamönnum og ummælum þeirra sem þannig tala heldur “til heimabrúks” en af skynsemi um mál í alþjóðlegu samhengi. Í sumum tilfellum getur slíkur kúrekaháttur jafnvel spillt fyrir meira en orðið er.

Oft á tíðum hafa íslenskir stjórnmálamenn gagnrýnt erlenda stjórnmálamenn fyrir þetta í málum sem hafa varðað hagsmuni íslensku þjóðarinnar á erlendum vettvangi. Ummæli skoskra stjórnmálamanna um makríldeiluna hafa t.d. stundum verið stimpluð “til heimabrúks” og þannig fundin léttvæg í umræðunni og jafnvel þótt skemma fyrir.

En þetta kemur líka fyrir íslenska stjórnmálamenn.

Árni Páll Árnason og Össur Skarphéðinsson hafa verið ötulir við heimabrúkið í ummælum sínum um makríldeiluna síðan í gærkvöldi. Báðir hafa þeir reynt að bera í bætifláka fyrir ESB en skella skuldinni á Noreg og Færeyinga og meinta vanhæfni íslenskra ráðherra.

Sko.

Í fyrsta lagi er þessi “þetta er okkur sjálfum að kenna” lína nú orðin svolítið þreytt.

Í öðru lagi eru það þrír aðilar sem eru sökudólgar í málinu, Noregur, ESB og Færeyjar. Þessi þrjú ríki semja sín á milli án Íslands. Það er óttalegt yfirklór að halda því fram að sökin liggi eitthvað meira eða minna hjá einum aðila ein hinum. Slíkt setja pólitíkusar bara fram “til heimabrúks”.

Í þriðja lagi voru það ekki ráðherrar eða stjórnmálamenn sem sátu í samninganefndinni sem tókst ekki að ná samningum heldur þrautreyndir samningamenn. Að skella skuld vegna undirferlis annarra ríkja við samningaborðið á ráðherra eða vanhæfni stjónmálamanna er því bara, já þið gátuð einmitt upp á því: “Til heimabrúks”.

Og í fjórða lagi hafa samninganefnd Íslands og ráðherrar sameiginlega haldið mjög vel á lofti skýrum málstað Íslands í allri þessari deilu, þ.e. að samningar um veiði á makrílstofninum skuli byggjast á sjálfbærum veiðum á vísindalegum grunni ráðgjafar alþjóða hafrannsóknaráðsins. Það er bara einföld staðreynd.

Og hér eru nokkrar staðreyndir í viðbót.

Áratugalöng og árangursrík reynsla Íslands af sjálfbærum veiðum byggðum á vísindalegri ráðgjöf hefur skilað mun betri nýtingu og ástandi fiskistofna við Ísland en hjá flestum öðrum þjóðum.

Í samningaviðræðum um nýtingu makrílstofnsins hefur Ísland alltaf lagt áherslu á samkomulag sem fylgir vísindalegri ráðgjöf til að tryggja sjálfbærar veiðar.

Veiðiráðgjöf Alþjóða hafrannsóknaráðsins (ICES) gerir ráð fyrir 890 þúsund tonna heildarafla makríls fyrir árið 2014.

Samkomulag Íslands og ESB fyrir síðustu samningalotu, á grundvelli sjálfbærra veiða, gekk út á að Ísland fengi aldrei minna en 11,9% leyfilegs heildarafla en til næstu tveggja ára yrði aflinn ekki minni en 123 þúsund tonn (13,8% af veiðiráðgjöf ICES fyrir 2014).

Samkvæmt því samkomulagi, og hækkuðum heildarafla skv. ráðgjöf ICES hefði heildarafli Norðmanna ekki verið skertur miðað við fyrri ár. Veiðar Íslands og Færeyja hefðu því ekki haft nein áhrif á heildarafla Norðmanna. Norðmenn vildu hins vegar meira og lögðu áherslu á að veitt yrði langt umfram veiðiráðgjöf ICES. Íslendingar lögðu áherslu á að virða vísindalega veiðiráðgjöf ICES.

Samningur ESB, Noregs og Færeyja nú gerir ráð fyrir 1047 þúsund tonna afla þessara ríkja, sem er 18% yfir heildarveiðiráðgjöf ICES. Þá á eftir að gera ráð fyrir veiðum Íslendinga, Rússa og Grænlendinga.

Það er því ljóst að samningur ESB, Noregs og Færeyja gerir ráð fyrir ofveiði á makrílstofninum. Ljóst er að heildarveiðin á stofninum getur skv. þessu farið meira en 50% fram úr vísindalegri ráðgjöf.

Evrópusambandið hefur með samningnum við Noreg og Færeyjar svikið fyrra samkomulag við Ísland og þau markmið um sjálfbærar veiðar sem lágu því til grundvallar.

Þá er það ótalið að í síðustu samningalotu reyndi Noregur að koma í veg fyrir að Ísland gæti gert tvíhliða samninga við önnur ríki um heimild til að veiða hluta makrílaflans í lögsögu þeirra. Slíkt er fáheyrt í samningum milli ríkja og algerlega óáslættanlegt. Noregi koma tvíhliða samningar Íslands við önnur ríki ekki við. Ísland hefur komið mótmælum á framfæri við Norðmenn vegna þessa.

Ísland hefur setið undir hótunum ESB um viðskiptaþvinganir vegna ofveiði á makríl. Áður hefur komið fram að slíkar viðskiptaþvinganir eru ólögmætar. Við það bætist nú að sá heildarafli sem ESB hefur samið um við Noreg og Færeyjar er beinlínis byggður á ofveiði. Öll rök ESB fyrir því að beita Ísland viðskiptaþvingunum eru því fallin um sjálf sig. Það væri því fullkominn tvískinnungur ef ESB ætlaði sér að halda slíkum hótunum til streitu.

Vilji Össur og Árni fremur slá sér á lær og hía á pólitíska andstæðinga “til heimabrúks” en taka skynsamlega á sameiginlegum vanda íslensku þjóðarinnar sem kominn er upp í makríldeilunni er svo sem lítið sem við hin getum gert í því.

Nema kannski að benda kurteislega á að það er stundum minnst gagn í þeim sem hæst gala.