Fyrirsögn stenst ekki skoðun
Forseti Íslands lýsti skoðun sinni á stöðu aðildarviðræðna Íslands og Evrópusambandsins við þingsetningu síðast liðinn fimmtudag. Orð forsetans foru í taugarnar á ýmsum en þó sérstaklega þeim sem töldu að forsetinn hefði sagt eitthvað allt annað en hann sagði eða túlkuðu orð hans á sérkennilegan hátt. Mat forsetans var um margt líkt mati varaformanns Framsóknarflokksins sem birtist í Bændablaðinu um svipað leyti og vakti gremju hinna sömu og settu út á orð forsetans.
Ríkisútvarpið gerði frétt um þá afstöðu varaformannsins að nú væru ekki heppilegar aðstæður fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að ESB.
Fréttamaðurinn fullyrti að þetta væri „nokkuð þvert á orð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra, frá því að stjórnarsáttmálinn var kynntur á Laugarvatni hinn 22. maí.“
Svo voru þau orð spiluð: „Að sjálfsögðu kemur til þjóðaratkvæðagreiðslu, en menn hljóta, við ákvörðun um tímasetningu, að taka aðstæður inn í reikninginn,“
Að halda því fram að þau orð að það þurfi að taka aðstæður með í reikninginn “gangi nokkuð þvert á” orð forseta Íslands og varaformanns Framsóknarflokksins þess efnis að nú væru ekki réttu aðstæðurnar virðist “ganga nokkuð þvert á” sanngjarnt mat.
Næst var vitnað í orð starfsmanns stækkunarstjóra ESB sem sagði ekki annað en að ákvörðun um að hefja aðildarviðræður við Ísland hefði verið tekin af öllum ríkjum og stæði óbreytt. Ekki var augljóst hvaða erindi þetta ágæta staðlaða svar embættismannsins í Brussel átti í fréttina nema til að stilla því upp sem einhvers konar andstæðu þess sem forsetinn hafði sagt, sem það var auðvitað ekki.
Daginn eftir birtist ný frétt um málið, fyrsta frétt hádegisfrétta. Við upphaf fréttatímans sagði: “Ummæli forsætisráðherra þess efnis að fullveldismál heyri undir forseta Íslands standast ekki skoðun. Þetta segir prófessor í stjórnskipunarrétti. Forsætisráðherra breyti ekki stjórnskipun landsins.”
Hvað hafði gerst? Hafði prófessor í stjórnskipunarrétti haft samband við fréttastofuna og fullyrt að orð forsætisráðherra stæðust ekki skoðun og auk þess talið sig þurfa að árétta að forsætisráðherra breytti ekki stjórnskipun landsins? Nei, það var ekki alveg svoleiðis.
Sami fréttamaður og unnið hafði “nokkuð þvert á” fréttina fullyrti nú að orð forsætisráðherra um að fullveldismál heyrðu m.a. undir forseta Íslands stæðust ekki skoðun.
Viðmælandinn, Ragnhildur Helgadóttir, prófessor, svaraði spurningum fréttamanns reyndar ágætlega og ekkert var út á svör hennar að setja.
Fréttamaður spurði: “Þannig að það sem þú ert að segja að forseti Íslands fer ekki með fullveldismál?”
Því svaraði prófessorinn: “Þetta er erfið spurning að svara vegna þess að fullveldismál í lögfræðilegum skilningi er annað mál en fullveldismál í þeim skilningi sem forsætisráðherra notar það þarna.”
Semsagt: Lögfræðilega er ekki munur á fullveldismálum og öðrum málum, en það á ekki beint við um orð forsætisráðherra þar sem hann er ekki að tala um þetta í lögfræðilegum skilningi.
Þessi bútur var svo af einhverjum ástæðum klipptur út úr fréttinni sem sett var á heimasíðu RUV, enda hefði hin afdráttarlausa fyrirsögn sem sett var á fréttina annars passað enn verr en ella, þ.e. fyrirsögnin : “Ummæli Sigmundar standast ekki skoðun.”
Þrátt fyrir ágætt svar prófessorsins var næst spurt: “Þannig að þessi ummæli Sigmundar Davíðs fela kannski í sér einhverja breytingu á stjórnskipun landsins?”
Prófessorinn upplýsti, sem von var, að forsætisráðherra breytti ekki stjórnskipun landsins.
Telji menn að forseti Íslands eigi ekki að tjá sig um fullveldi landsins sem hann er í forsæti fyrir, mál sem heyrir undir alla Íslendinga, væri líklega ekki úr vegi að spyrja forsetann hvort hann sé sama sinnis.
Ekki var það þó gert, en sami fréttamaður dró þess í stað úr pússi sínu í kvöldfréttum annan fræðimann til að spyrja hvort sá væri sammála túlkun fréttamanns á svörum viðmælanda úr hádegisfréttum? Ekki stóð á því. Hvergi í viðtalinu virtist hins vegar koma til álita að spyrja fræðimanninn hvort hann væri sammála því mati lögfræðiprófessorsins að þessi túlkun fréttamanns ætti í raun ekki við ummæli forsætisráðherra.
Það hlýtur að teljast eðlilegt að fréttamenn fjölmiðlils allra landsmanna gæti þess að fyrirsagnir séu almennt í samræmi við staðreyndir og ummæli viðmælenda.
—————————————
Athugasemd 11.6.2013: Umræddur fréttamaður hafði samband við mig og kom á framfæri allnokkrum athugasemdum við pistilinn, sem er auðvitað gott og sjálfsagt. Þar kom m.a. fram að fyrirsögnin sem um ræðir hafi verið komin frá viðmælanda sjálfum skv. samtali áður en fréttin var birt. Það var mér auðvitað ókunnugt um. Því er hér með til haga haldið og samkvæmt þeirri skýringu hefur þess vissulega verið gætt að fyrirsögnin væri í samræmi við ummæli viðmælandans.
JÞS