Hræðslubandalagið

Fyrir Alþingiskosningarnar 1956 mynduðu Alþýðuflokkur og Framsóknarflokkur kosningabandalag með það að markmiði að halda Sjálfstæðisflokknum fyrir utan ríkisstjórn. Bandalagið var nefnt Hræðslubandalagið af andstæðingum þess.

Nú keppast hrunstjórnarflokkarnir báðir, Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn, við að berja sem mest á Framsókn í greinum og viðtölum.

Samfylkingin boðar að atkvæði greidd Framsókn tryggi að Sjálfstæðisflokkurinn komist í ríkisstjórn. Það á að hræða vinstrimenn heim í hagann.

Sjálfstæðisflokkurinn hamast á því að atkvæði greidd Framsókn tryggi áframhaldandi vinstristjórn. Það á að hræða hægrimenn heim á garðann.

Ég hef áður fjallað um það hvers konar rökþrot svona málflutningur er. Skiptir þá engu hvort hann kemur frá hægri eða vinstri.

Þetta ágerist nú eftir því sem vinstri og hægri flokkarnir sjá það svartara í skoðanakönnunum. Bjarni Benediktsson gekk svo langt að halda fram þeim ósannindum í Morgunblaðinu um helgina að framsóknarmenn hafi “í langan tíma talað fyrir því að mynda vinstristjórn”. Einhverjir hefðu á árum áður kallað svona lagað Moggalygi.

Hið rétta er að framsóknarmenn hafa í langan tíma talað fyrir því að starfa í ríkisstjórn með þeim flokkum sem vilja vinna með okkur að stefnumálum Framsóknar. Þar á meðal eru ofarlega á blaði lausnir á skuldavanda heimilanna og afnám verðtryggingar.

Það er því umhugsunarvert að málflutningur bæði Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar gefur skýrt til kynna að þessir flokkar hafi ekki áhuga á að vinna að þessum málum með Framsókn. Forystumenn þeirra nota jafnvel fjölmiðlaviðtöl sín frekar til að útskýra hversu vond stefnumál Framsóknar séu og gera framsóknarmönnum upp skoðanir en til að mæla sínum eigin stefnumálum bót. Er þá ekki rökrétt ályktun að þessir flokkar vilji helst mynda ríkisstjórn hvor með öðrum ef þeir fá tækifæri til?

Í kosningunum árið 1956 vann Hræðslubandalagið nauman sigur og tókst að halda andstæðingum sínum utan við ríkisstjórn. Upp úr stjórnarsamstarfinu slitnaði hins vegar að tveimur árum liðnum. Sagan er góður kennari.