Illugi og Elliði bíta í tunguna á sér. Stefna Framsóknar á landsfundi íhaldsins.
Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Eyjum hefur hingað til ekki verið fyrirferðarmikill í landsmálapólitík. Honum var hins vegar á laugardag sigað á Framsókn með grein í Morgunblaðinu. Enda var það í samræmi við að forysta Sjálfstæðisflokksins nýtti fyrstu tvo daga landsfundarins til að marg lýsa því yfir að verðtrygging yrði ekki afnumin og að ekkert yrði gert til að leiðrétta skuldir heimilanna. Það væri barasta ekki hægt og því væri stefna Framsóknar í málinu ómöguleg.
Þessi afstaða forystu Sjálfstæðisflokksins kom svo sem ekkert á óvart. Bjarni Benediktsson tók það enda skýrt fram í Kryddsíldinni um áramótin að hann hefði ekki áhuga á leiðréttingu skulda heimilanna, aðeins að lagfæra úrræði vinstri stjórnarinnar.
Svo rammt kvað að þessum málflutningi á landsfundi íhaldsins, að á laugardag virtist sem sjálfstæðismenn litu á Framsókn sem höfuðandstæðinga sína í komandi kosningum en ekki vinstri flokkana. Illuga Gunnarssyni var orðið sérlega heitt í hamsi yfir þessu þegar málið var rætt í fyrirspurnartíma forystunnar, enda búinn að fara mikinn í fjölmiðlum um hvað Framsókn væri að lofa upp í ermina á sér með því að vilja skipa sérfræðingahóp til að útfæra afnám verðtryggingar og leita leiða til að leiðrétta stökkbreytt húsnæðislán heimilanna.
Grein Elliða var runnin af sama meiði. Bein skilaboð frá forystu Sjálfstæðisflokksins. Albaníuleiðin með viðkomu í Vestmannaeyjum. Greinin var svo sem fyndin en flest í henni rangt. Sett í samhengi við landsfundinn virtist höfuðtilgangur hennar satt að segja vera að sannfæra landsfundarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um stefnu forystunnar.
Það var því verulega vandræðalegt fyrir Elliða og Illuga þegar kom í ljós að stór hluti af landsfundarfulltrúum var bara alls ekki sammála þeim og forystu flokksins. Hreint óskaplega ósammála satt að segja. Svo svakalega ósammála að á endanum neyddist Bjarni Benediktsson sjálfur til að fara í pontu á síðustu stundu og leggja fram sáttatillögur um verðtryggingar- og skuldaleiðréttingarmál. Því að landsfundurinn var alls ekki tilbúinn að samþykkja stefnu forystunnar.
Og hver er þá niðurstaðan? Sjálfstæðisflokkurinn kemur út úr landsfundi sínum með stefnu í verðtryggingar- og skuldamálum sem er hreinlega byggð á nákvæmlega sömu markmiðum og stefna Framsóknar, en gengur bara skemur í orðalagi.
Þeir Elliði, Illugi og félagar hljóta að bíta í tunguna á sér. Nú er Sjálfstæðisflokkurinn búinn að ákveða – eins og Framsókn – að markvissar aðgerðir um leiðréttingu skulda heimilanna og að koma í veg fyrir að verðtryggð húsnæðislán verði áfram normið á lánamarkaði skuli vera forgangsverkefni á fyrsta ári næstu ríkisstjórnar. Sjálfstæðisflokkurinn er einnig búinn að ákveða – eins og Framsókn – að taka upp „lyklalög“ eins og Lilja Mósesdóttir lagði til á sínum tíma. Og síðast en ekki síst er Sjálfstæðisflokkurinn búinn að ákveða að taka upp tillögu Framsóknar um skattaafslátt vegna greiðslu húsnæðislána.
Framsókn hefur á kjörtímabilinu stundum verið legið á hálsi fyrir að „elta íhaldið“. En er það einhver spurning lengur hver það er sem eltir?
Eftir þessa sveiflukenndu atburðarás landsfundarins (og svipað flökt forystu Sjálfstæðisflokksins í öðrum málum, t.d. Icesave) er ekki annað hægt en að velta því fyrir sér hvor flokkurinn er líklegri til að standa staðfastur og sameinaður um stefnumál sín eftir kosningar. Það er í það minnsta ljóst að miðað við stóryrtar yfirlýsingar við upphaf landsfundarins er forysta Sjálfstæðisflokksins er alls ekki sammála þeirri stefnu sem landsfundurinn samþykkti að lokum.
Yfirskrift landsfundar Sjálfstæðisflokksins var „í þágu heimilanna“. Og skilaboð fundarins eru augljós. Forysta Sjálfstæðisflokksins þarf að fara að hlusta meira á eigin grasrót, sérstaklega þegar kemur að málefnum heimilanna.
Eitt enn.
Það er þrátt fyrir allt rétt að þakka Elliða Vignissyni fyrir greinina þá arna. Það er nefnilega mjög þarft að bæjarstjórinn rifji það upp, nú rétt fyrir kosningar, að í samstarfi flokkanna tveggja á síðasta áratug lét Sjálfstæðisflokkurinn framsóknarmenn ítrekað eina um að svara fyrir erfið mál og beitti þá sveitarstjórnarmönnum og öðrum gjarnan fyrir forystu flokksins á þennan hátt.
Ef Sjálfstæðismenn ætla nú aftur að taka upp slíka hegðan má Elliði Vignisson gjarnan koma því til skila til yfirboðara sinna að framsóknarmenn hafa lært af reynslunni og munu hafa þetta í huga í framhaldinu.